Staðfest í tveimur görðum á Brekkunni

Nú hefur verið staðfest að birkikemba er tekin að herja á birki í görðum Akureyringa. Í fyrra fannst hún í Varmahlíð í Skagafirði þannig að búast má við fregnum af frekari útbreiðslu á næstunni. Ábendingar um slíkt eru vel þegnar.

Rakel J. Jónsdóttir, skógfræðingur hjá Norðurlandsskógum, fékk ábendingu um skaðvald á birki í garði við Mýrarveg á Akureyri og tók þessar myndir sem hér fylgja. Edda S. Oddsdóttir, sérfræðingur á Mógilsá, hefur staðfest að þetta sé birkikemba. Nú í vikunni var Hallgrímur Indriðason, skógfræðingur hjá Skógrækt ríkisins á Akureyri, kallaður til í garð við Birkilund þar sem greinilegt var að birkikemban var komin í öll birkitré. Birkikemba í Birkilundi.

Í nýútkominni bók Guðmundar Halldórssonar og Halldórs Sverrissonar, Heilbrigði trjágróðurs, segir þetta um birkikembu:

Birkikemba fannst hér fyrst sumarið 2003. Tegundin hefur einnig verið nefnd birkismuga, sem lýsir vel lifnaðarháttum lirfunnar, en kembuheitið vísar til höfuðbúnaðar fiðrildisins. Birkikemba hefur nú fundist allvíða á Suður- og Suðvesturlandi. Fiðrildin verpa á vorin og lirfurnar smjúga inn í nýútsprungin laufblöð, á milli efra og neðra borðs. Þar nærast þær á blaðholdinu. Þannig myndast hálfgagnsæir gluggar á blöðunum. Lirfan er fullvaxin upp úr miðju sumri og púpar sig. Tjón af völdum birkikembu hefur aukist mjög á undanförnum árum.

Þrátt fyrir það sem segir hér um tjón af völdum birkikembu eru skógfræðingar þó á því að kemban dragi ekki svo mjög úr vexti birkitrjáa en hún getur vissulega gert trén ljót. Eftir er að sjá hvort hingað berast líka ránkvikindi sem lifa á birkikembunni eða hvort birkið myndar mótstöðu gegn henni þannig að áhrifin verði minni. Rúnar Ísleifsson, skógarvörður á Vöglum, segist ekki vita til þess að birkikemban sé farin að herja á birkiskóga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum en fyrst hún sé komin til Akureyrar hljóti að vera stutt í það. Rétt sé að litast um eftir henni í skógunum í ljósi þessara nýju tíðinda.

Ábendingar um birkikembu á nýjum stöðum eru sem fyrr segir vel þegnar og má senda þær til  Eddu S. Oddsdóttur, Halldórs Sverrissonar, eða Brynju Hrafnkelsdóttur sem öll eru sérfræðingar á Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá. Einnig er rétt að benda á Skaðvaldavefinn hér á vef Skógræktar ríkisins.



Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Rakel J. Jónsdóttir