Veldur aðallega sjónrænum áhrifum á birkinu

Nú þegar farið er að vora fara æ fleiri skordýr að vakna til lífsins. Eitt þeirra er birkikemban (Eriocrania unimaculella), en fiðrildi hennar hefur sést flögra í görðum og sitja á húsveggjum á höfuðborgarsvæðinu og víðar undanfarna daga.

Birkikemba, sem er smávaxið fiðrildi, er tiltölulega nýr skaðvaldur í skógrækt hérlendis. Hún fannst fyrst í Hveragerði árið 2005. Í fyrstu var hún einungis á suðvesturhorninu en hefur dreift sér hratt og finnst nú víða á Suður- og Vesturlandi. Fiðrildin sjást flögra í kringum birkitré í apríl og fram í maí. Kvendýrin verpa í brum birkitrjáa og eftir klak smjúga lirfurnar inn í laufblöð trjánna. Innan í blöðunum nærast þær á blaðholdi með þeim afleiðingum að holrými myndast innan í blöðunum og yfirborðið verður brúnt.Þegar lirfurnar eru orðnar fullvaxta skríða þær niður í jörðu og eru þar á púpustigi fram til næsta vors.

Líklegt er að birkikemba eigi eftir að halda áfram að dreifa sér um landið á næstu árum. Lirfur hennar valda aðallega sjónrænum skaða á birki en ólíklegt er að þær dragi mikið úr vexti eða valdi trjádauða.


Myndir:
Á efri myndinni má sjá birkikembu sitja á greinarenda en á þeirri neðri sjást skemmdir af völdum lirfunnar.


Heimildir:
http://www.ni.is/poddur/nattura/poddur/nr/1008

Ársrit Skógræktar ríkisins 2009

Texti: Brynja Hrafnkelsdóttir