Dennis Riege og Christine Palmer við mælingar. Skjámynd úr myndbandinu
Dennis Riege og Christine Palmer við mælingar. Skjámynd úr myndbandinu

Stafafura er ekki ágeng tegund og auðvelt er að hafa hemil á sjálfsáningu hennar. Langtímarannsókn á sjálfsáningu innfluttra trjátegunda bendir ekki til þess að íslenskri náttúru stafi hætta af stafafuru eða öðrum innfluttum trjátegundum. Stafafura er hins vegar mjög góð tegund til að græða upp land og í ljós kemur að birki og stafafura þrífast vel saman.

Þetta er meðal fyrstu niðurstaðna í langtímarannsókn sem hlaut styrk frá National Geographic stofnuninni í Bandaríkjunum árið 2015. Henni stýrir bandaríski vistfræðingurinn Dennis Riege og síðasta sumar var hann hér við skógmælingar fimm árum eftir að rannsóknin hófst ásamt Christine M. Palmer, dósent við Castleton-háskólann og doktor í líffræði. Hún  nýtur Fulbright-styrks til rannsókna á trjávexti á Íslandi. Dennis Riege er prófessor við Maryland-háskóla í Bandaríkjunum.

Þau Dennis og Christine segja frá rannsóknum sínum í nýju myndbandi sem Skógræktin hefur sent frá sér. Christine segir mjög spennandi hvað skógur vaxi vel á Íslandi, meira en margir átta sig á. Með skógrækt verði ekki bara til falleg útivistarsvæði fyrir fólk heldur veiti skógarnir skjól fyrir fólk og fé, þeir séu matarkista og gefi auk þess timbur sem nota megi í mannvirki. Skógrækt sé bæði leið til að búa til fallegt umhverfi og að hamla gegn jarðvegseyðingu.

Sjálfsáning innfluttra tegunda lítil

Dennis Riege með mælistikuna. Skjámynd úr myndbandinuStyrkur National Geographic var veittur til að koma mætti upp mæliflötum svo rannsaka mætti sjálfsáningu innfluttra trjátegunda út fyrir gróðursett svæði. Þetta er langtímarannsókn en á þeim fáu árum sem liðin eru hafa þó fengist ákveðnar niðurstöður. í ljós kemur að sjálfsáning innfluttra trjátegunda er mjög lítil þótt vissulega geti stafafura numið ný lönd, að sögn Dennis Riege.

Mælingarnar fimm árum frá upphafi rannsóknarinnar sýna að ung fura hefur stækkað um helming í mælifletinum þar sem myndbandið er tekið. Talsvert er þar um sjálfsáðar furur einnig. Dennis bendir hins vegar á að stafafuran sái sér næstum ekkert í vel gróin svæði og alls ekki í órofið land eða ræktarlönd bænda. Sjálfsáning furu ógni því alls ekki íslensku landslagi. Mjög auðvelt sé að hafa stjórn á útbreiðslunni ef þörf er talin á. Stafafuran hafi ótvíræða kosti sem tegund til að ná skjótum árangri með í illa grónu landi. Um aðrar innfluttar trjátegundir segir hann að sjálfsáning sé lítil og tegundir eins og t.d. sitkagreni fari hægt af stað í rýru landi.

Birkið stenst furunni snúning

Birki er mjög duglegt að sá sér út og stafafuran stenst því engan veginn snúning í því efni. Tegundirnar þrífast vel saman. Skjámynd úr myndbandinuAuk sjálfsáningar er í rannsókninni fylgst með vexti trjánna, sjálfsáning kortlögð og sömuleiðis reiknað út hversu mikið skógurinn bindur af kolefni. Jafnframt er rannsókninni ætlað að svara því hvernig skógrækt getur nýst til að efla íslensk vistkerfi sem hafa rofnað og jafnvel breyst í auðn.

Dennis segir líka að íslenska birkið standi sig mjög vel gagnvart stafafurunni. Furan sýni birkinu alls ekki yfirgang og þar sem tegundirnar deila vaxtarsvæði virðist báðar halda mjög vel velli. Í rannsókninni er einmitt skoðað til lengri tíma sambýli íslensks birkis og víðis við innflutta stafafuru og fleiri innfluttar trjátegundir. Líkt og birkið viðist víðirinn einnig standast vel samkeppni við stafafuru og fleiri tegundir.

Sveppirnir mikilvægir

Christine M. Palmer. Skjámynd úr myndbandinuChristine segir mjög heillandi við Ísland hversu miklir möguleikar séu hér til nýskógræktar. Sérsvið hennar er rannsóknir á sveppum sem vaxa í jarðveginum, einkum svepprótartegundum á trjárótum sem hjálpa til við upptöku næringarefna. Hún bendir á að „sveppurinn“ sem við tínum á yfirborðinu og borðum er ekki nema lítið brot af lífverunni. Stærsti hlutinn er ofan í moldinni og Christine segir mjög áhugavert að kanna hversu miklu sveppurinn skiptir fyrir trén til að komast í góðan vöxt.

Fulbright-styrkur Christine er veittur úr norðurslóðaáætlun Fulbright. Hún fékk styrkinn til að mæla trjávöxt á Íslandi sem meðal annars tengist bindingu kolefnis úr andrúmsloftinu. Í því sambandi segir hún að aukin áhersla stjórnvalda á kolefnisbindingu sé mjög spennandi. Ótrúlegt sé að hugsa til þess, þegar maður heldur utan um stórt og stæðilegt tré að það sé í raun búið til úr lofti. Trén draga koltvísýring úr andrúmsloftinu og breyta honum í efni sem við getum notað til að hita upp hjá okkur húsin eða til að smíða eitthvað úr því.

Hún hælir Íslendingum fyrir hvað þeir standi sig vel í raforkuframleiðslu með vatnsafli og húshitun með jarðvarma. Ísland sé upplögð fyrirmynd annarra landa til að sýna hvernig fólk getur bundið kolefni úr andrúmsloftinu, ræktað fleiri tré og búið til nýja auðlind. Það sé hagur okkar allra.

Hlynur Gauti Sigurðsson gerði myndbandið og það er að finna á myndbandavef Skógræktarinnar ásamt ótal öðrum myndböndum um skógrækt.

Texti: Pétur Halldórsson