Norðmenn vilja auka hlut skóga í kolefnisbókhaldinu

Skógar taka upp gróðurhúsalofttegundina koltvísýring úr andrúmsloftinu og geyma hana. Um þetta er fjallað á vef norsku umhverfisstofnunarinnar, Miljødirektoratet. Fram kemur að árið 2011 hafi nettóbinding koltvísýrings í norskum skógum numið 32 milljónum tonna.

Ellen Hambro, forstjóri Miljødirektoratet, segir að bindingin í norsku skógunum samsvari 60 prósentum af kolefnislosun landsins. Í loftslagsstefnu norskra stjórnvalda sem samþykkt var í fyrra var kveðið á um að rækta skyldi nýja skóga til að vinna gegn loftslagsvandanum. Þegar stórþingið fjallaði um stefnuna voru þingmenn sammála um að norsku skógarnir ættu að binda enn stærra hlutfall af því sem norska þjóðin losar af koltvísýringi.

Að velja réttu svæðin

Norska umhverfisstofnunin, landbúnaðarstofnunin og stofnunin um skóg og landslag hafa nú lagt mikilvægt plagg til þessara mála, skýrslu sem heitir á norsku Planting av skog på nye arealer som klimatiltak“ sem útleggst „ræktun nýskógar sem loftslagsaðgerð“. Skýrslan var gerð að ósk náttúruverndarráðuneytisins og landbúnaðar- og matvælaráðuneytisins. Ellen Hambro segir að útbúin hafi verið uppskrift að því hvernig og hvar rækta skal skóg. Leggja skuli áherslu á að velja svæði þar sem sátt getur verið um gróðursetningu trjáplantna og þar sem hún hefur jákvæð áhrif, bæði út frá loftslagssjónarmiðum, líffjölbreytni, öðrum umhverfisgildum en líka fyrir skógargeirann sem atvinnugrein. Stofnanirnar þrjá hafa lagt til sex umhverfisvísa sem skylt yrði að nota sem leiðarstef til að njóta styrkja til þessarar nýskógræktar.

Tillögur að umhverfisvísum

1. Að meta hvort innan viðkomandi sveitarfélags, þar sem hugmyndin er að rækta skóg, séu í gildi lög eða reglur sem kveða á um að þar skuli að jafnaði ekki leyfa skógrækt.
2. Að meta hvort á væntanlegu skógræktarsvæði er að finna verðmætar vistgerðir, náttúrufyrirbæri eða menningarlandslag.
3. Að meta hættuna á því hvort skógrækt á tilteknu svæði hefur áhrif á slíka þætti í umhverfinu út fyrir væntanlegt ræktunarsvæði.
4. Að meta gildi og verðmæti landslags og ásýndar lands og þýðingu þess fyrir útivist og aðra upplifun.
5. Að meta hvort ráð eru fyrir hendi til að laga skógræktina að viðkvæmum umhverfisþáttum eða grípa til mótvægisaðgerða til að koma í veg fyrir að skógræktin rýri verðmæt umhverfisgildi.
6. Að meta hvernig hafa má í heiðri markmið og gildi laga um vernd líffjölbreytni.

Ellen Hambro segir að þessir umhverfisvísar eigi að tryggja að réttu svæðin séu valin til að binda kolefni á móti losun án þess að skógræktin hafi óviðunandi áhrif á líffjölbreytni og önnur umhverfisleg verðmæti.

Hentug svæði

Í skýrslunni er bent á hvers konar svæði það eru sem helst eru talin henta til nýskógræktar. Mest binding næst með því að gróðursetja í svæði þar sem lítill lífmassi er fyrir í náttúrunni, í bersvæði eða svæði sem eru að gróa upp. Á svæðum þar sem skógræktarskilyrði eru góð frá náttúrunnar hendi og möguleikar á miklum viðarvexti ætti að setja í forgang.

Að auki skulu svæðin vera vel aðgengileg svo þau séu fýsilegri kostur til gróðursetningar fyrir landeigandann. Oft á þetta við um gömul jarðræktarsvæði. Ellen Hambro bendir á að skógrækt á gömlu ræktarlandi sé einmitt mjög oft fýsileg aðgerð til þess að auka líffjölbreytileika því þetta séu svæði sem séu mjög mörkuð af nytjum mannsins á þeim. Greni bindur mest trjátegunda af koltvísýringi og gefur auk þess mest af sér fyrir skógariðnaðinn en til greina kemur að nota fleiri tegundir líka í skógrækt eins og þessari, sem við gætum kallað „kolefnisskógrækt“.

Fulltrúar stofnananna þriggja telja mögulegt að gróðursetja trjáplöntur í að minnsta kosti 50.000 hektara árlega næstu tuttugu árin án þess að það komi niður á líffjölbreytni eða öðrum umhverfisverðmætum. Eftir því sem svæði þessi stækka þarf að taka meira tillit til slíkra þátta og líkurnar aukast á að grípa þurfi til málamiðlana.

Stuðningur

En kolefnisskógrækt gerist ekki af sjálfu sér og kemur þar margt til. Í þessum efnum gerist til dæmis ekkert nema hið opinbera leggi til fjármagn og að skipulag skógræktarinnar sé á höndum yfirvalda á hverjum stað eða svæði. Um þetta er rætt í skýrslunni, en einnig að niðurgreiða þurfi skógarplöntur hjá framleiðendum þeirra. Með öðrum orðum þarf efnahagslega hvata til að þetta verði að veruleika. Auk þess þarf að stuðla að betri þekkingu og hæfni þess fólks sem á að skipuleggja og rækta skóginn.

Kostnaður

Nokkurn tíma tekur að koma skógrækt sem þessari í gang. Starfshópurinn gerir ráð fyrir þriggja ára undirbúningstíma fyrir kolefnisskógræktina, m.a. að setja niður fyrir sér hvaða svæði skuli nota og svo tekur auðvitað tíma fyrir trjáplöntustöðvar að framleiða plönturnar. Áætlað er að það kosti að meðaltali um 100 milljónir norskra króna á ári að gróðursetja í 50.000 hektara ef miðað er við 20 ára tímabil. Ekki hefur verið greint hver fjárhagslegur ávinningur yrði af verkefninu en starfshópurinn Klimakur 2020 sem tók út möguleika Norðmanna til að draga úr nettó kolefnislosun fyrir árið 2020 áleit nýskógrækt vera hentuga aðferð í samanburði við aðrar tiltækar aðferðir til kolefnisjöfnunar. Þar var áætlað að kostnaðurinn við bindingu á hverju tonni koltvísýrings væri 50 norskar krónur og var kostnaðurinn við plöntukaup innifalinn í því.

Í skýrslunni sem hér er sagt frá, „Planting av skog på nye arealer som klimatiltak“ er líka skoðaður sá möguleiki að ryðja skóg til að gróðursetja aðrar og afkastameiri trjátegundir. Sú aðferð er nokkru dýrari en samt sem áður talin brúkleg sem aðferð til kolefnisbindingar. 

Loks má geta þess að norska dagblaðið Nationen fjallaði um málið í gær, 12. ágúst, og þar var meðal annars sagt frá því að meðal náttúruverndarfólks heyrast raddir gegn þessum áformum. Blaðið vitnar í Heidi Saure sem starfar hjá líffræðistofnun háskólans í Bergen. Saure var einn vísindamanna sem undirrituðu mótmælaskjal í fyrrahaust gegn kolefnisskógrækt. Vísa þau til þess að fyrstu árin sé nettólosun vegna kolefnisskógræktar, ekki binding, en Nationen greinir frá því að loftslagsnefnd SÞ vilji líta lengra fram í tímann, til ársins 2100, og niðurstaða nefndarinnar sé að kolefnisskógrækt sé nauðsynleg til að halda hlýnun innan tveggja stiga marksins. Blaðið vitnar líka í Tine Sundtoft umhverfisráðherra sem segir markmið ríkisstjórnarinnar að ljúka málinu á þessu ári. Í grein á vef norskra skógareigenda skrifar forstjórinn, Nils Bøhn, um málið og gerir einmitt ráð fyrir að stjórnvöld ákveði fjárveitingar til málsins á þessu ári.

Endursagt af vef Miljødirektoratet
Endursögn: Pétur Halldórsson
Ljósmynd: Kristian Andre Gallis