Hér hefur finnskur skógarreitur verið gjörfelldur og allt hreinsað burt nema rótarhnyðjur. Mikilvægt…
Hér hefur finnskur skógarreitur verið gjörfelldur og allt hreinsað burt nema rótarhnyðjur. Mikilvægt er fyrir skógarjarðveginn að greinar og fleira sé skilið eftir í skóginum til að rotna svo að kolefnisbúskapur jarðvegsins viðhaldist. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Kolefnisforði jarðvegs í barrskógi minnkar ef allur lífmassi trjánna er fjarlægður við grisjun. Mikilvægt er fyrir kolefnisbúskapinn að grennra efni en nýtanlegir trjábolir sé skilið eftir til að rotna í skóginum. Sú aðferð hefur einmitt verið notuð við skógarnytjar og -umhirðu hérlendis.

Kort sem sýnir svæðin þar sem gögnum var safnað. Kort: Sigmundur H. Brink,Um þetta er fjallað í nýútkominni yfirlitsgrein eftir breskt og norrænt vísindafólk. Meðal höfunda eru Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor í skógfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands, og Helena Marta Stefánsdóttir skógvistfræðingur. Greinin birtist í vísindaritinu Forest Ecology and Management. Titill hennar á ensku er Effects of intensive biomass harvesting on forest soils in the Nordic countries and the UK: A meta-analysis.

Notkun lífmassa úr skógi sem áður var látinn liggja eftir grisjun eða skógarhögg hefur farið vaxandi í Norður-Evrópu undanfarinn áratug enda hefur spurn eftir lífmassa til orkuframleiðslu farið vaxandi. Rannsóknin sem greinin segir frá gefur yfirlit um norræna og breska barrskóga. Skoðuð voru áhrif af þrenns konar aðgerðum í skógum á skógarbotninn og steinefnajarðveg. Allar fela þessar aðgerðir í sér að meira er tekið af lífmassa úr skóginum en við hefðbundnar nytjar.

  1. fjarlægja tré með öllum greinum við skógarhögg (WTH)
  2. fjarlægja tré með öllum greinum við grisjun (WTT)
  3. fjarlægja tré með öllum greinum og einnig rótarhnyðjum við skógarhögg (WTH+S)

Í gögnunum sem safnað var í rannsókninni er að finna ítarlegri efnafræðileg gögn en safnað hefur verið í fyrri yfirlitsrannsóknum.

Niðurstöðurnar sýna að allar þessar stórtæku aðgerðir leiddu til þess að forði lífræns kolefnis í jarðvegi fór minnkandi. Sömuleiðis minnkaði niturforði á skógarbotninum. Þessi áhrif sáust í efstu lögum jarðvegs, bæði eftir grisjun og lokahögg. Áhrifin eru tímabundin, en geta þó varað í áratugi og eru meiri eftir því sem sunnar dregur. Á Íslandi tíðkast almennt að hirða eingöngu grófari trjáboli við grisjun en skilja mjórra efnið eftir. Rannsóknin sýnir að slíkt er einmitt mikilvægt til að viðhalda t.d. kolefni í jarðvegi og góðri hringrás næringarefna.

Texti: Pétur Halldórsson