Lirfur trjávespu fundust í Evrópulerki á Mógilsá síðastliðinn vetur, eins og við sögðum frá hér á skogur.is og var það í fyrsta skipti sem lirfur slíkra dýra finnast í trjám hér á landi. Ekki var hægt að tegundagreina dýrin á lirfustigi og voru þau því geymdar á Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá, í þeirri von að einhver myndu klekjast út. Í júlí birtust síðan fyrstu dýrin og bendir allt til þess að hér sé um að ræða beltasveðju (Urocerus gigas). 

Fullorðin beltasveðja frekar stórt skordýr, eða 10-40 mm á lengd og kvendýrin hafa myndarlega varppípu sem stendur aftur undan bol dýrsins. Þrátt fyrir að varppípan virðist voldug, þarf ekki að hafa áhyggjur af því að beltasveðjan stingi menn því pípan er notuð til að bora inní trjábörk, þar sem kvendýrið verpir allt að 350 eggjum. Lirfurnar sem klekjast úr eggjunum lifa svo á viði trjánna í 1-3 ár áður en þær skríða að berkinum aftur og púpa sig. Fullorðin dýr koma fram í júlí eða ágúst og lifa á frjókornum.

Það eru einkum barrtré sem beltasveðjan sækir í og a.m.k. fimm ættkvíslir barrtrjáa (greni, fura, lerki, þinur og döglingsviður) eru skráðar sem hýslar. Ólíkt ættingja sínum Sirex noctilio sem verpir í lifandi tré og er talin ein af tíu verstu skordýraplágum heimsins, þá verpir beltasveðjan einkum í dauð tré og trjáboli og veldur því minni skaða en ella. Rétt er þó að hafa gætur á dýrinu og vilja sérfræðingar Rannsóknastöðvarinnar endilega fá fregnir af því ef fólk verður vart við lirfurnar í trjám.

13082012-(3)

13082012-(2)

Myndir og texti: Brynja Hrafnkelsdóttir og Edda S. Oddsdóttir