Margir hafa orðið varir við bágborið ástandi furu á suð- og vestanverðu landinu nú í vor og hræðst að á ferðinni sé einhvers konar trjásjúkdómur. Dr. Aðalsteinn Sigurgeirsson, forstöðumaður rannsóknarmiðstöðvar Skógræktar ríkisins á Mógilsá segir svo ekki vera. „Veðurfarið eftir áramótin, einkum í marsmánuði, skýrir líklega að mestu ljótleika furanna. Veðurfarið þá einkenndist af sólfari, frosti, þurranæðingi í norðanátt og saltákomu í suðvestanátt.”

Skemmdirnar eru einkar áberandi hjá stafafuru, minni hjá bergfuru en einnig hafa sést illa skemmdar lindifurur. Skemmdirnar lýsa sér einkum í rauðu og skemmdu barri þeim megin sem snýr mót suðri, eða hjá ungum trjám sem standa á skjóllausum berangri. Um er að ræða samspil saltroks í suðvestanátt eftir árámótin og sólfars í mars, þegar jörð var frosin.

„Furur hafa langar nálar sem gufar út um leið og umhverfishitinn fer upp fyrir frostmark. Þegar jörð er frosin og sólfar mikið, taka fururnar að gufa út öllu vatni sem tiltækt er og þorna upp vegna þess að rætur trjánna ná ekki að draga vatn upp úr frosnum jarðvegi. Afleiðingarnar koma síðan fram þegar vorar, nálarnar fara að roðna og trén fara að líta hörmulega út”, segir Aðalsteinn. Skemmdir af þessum toga hafa oft orðið á stafafuru hérlendis á undanförnum áratugum, þótt minna hafi borið á þeim hin seinni ár, líklega vegna hlýrri útmánaða. 

Þó ómögulegt sé að afturkalla þær skemmdir sem orðið hafa á furunum segir Aðalsteinn að furureigendur geti gripið til ákveðinna ráðstafanna til að aðstoða tré sín við að ná sér aftur á strik. „Það er gott að bíða fram á mitt sumar, þar til ljóst er að hvaða marki lifnar út úr greinum og brumum trjánna. Þegar ljóst er að tiltekin grein eða toppur mun ekki lifna og grænka, geta þeir klippt þá burt. Aðrar lausnir eru ekki í stöðunni, en í langflestum tilvikum munu fururnar jafna sig. Mörg trjánna sem eru rauð að vorlagi eru með lifandi brum og munu "klæða af sér" skemmdirnar í sumar. Í einhverjum tilvikum munu ung furutré missa efri hluta krónunnar en mynda nýja toppa á næstu árum. Slíkum trjám þarf að fylgja eftir með klippingu til þess að fyrirbyggja að trén verði margstofna og kræklótt. Í fáum tilvikum munu tré drepast, en slíkt á einkum við um ung tré á berangri.”