Verðlaunatillaga Arkís arkitekta að þjónustuhúsi í Laugarvatnsskógi.
Verðlaunatillaga Arkís arkitekta að þjónustuhúsi í Laugarvatnsskógi.

35 milljónir veittar til framkvæmda í sumar

Skógrækt ríkisins fær 35 milljónir króna af því 850 milljóna króna framlagi sem ríkisstjórnin hefur samþykkt að veita til brýnna úrbóta á ferðamannastöðum í umsjá eða eigu ríkisins. Stærstu verkefnin á svæðum Skógræktarinnar verða unnin í Vaglaskógi, á Laugarvatni, við Hjálparfoss og á Þórsmörk.

Til úthlutunar á Norðurlandi komu 7,5 milljónir króna. Í Kristnesskógi verður hálfri milljón varið til að ljúka við hjólastólastíg en sjö milljónir fara í að koma upp tveimur salernishúsum og vatnsveitu á tjaldsvæðunum í Vaglaskógi. Sömuleiðis verða settar upp raflagnir til að svara sívaxandi kröfum gesta á tjaldsvæðum um rafmagnstengingar fyrir ferðavagna og húsbíla.

Á Suðurlandi verður lokið við miklar og tímabærar endurbætur við Hjálparfoss þar sem sívaxandi ferðamannastraumurinn var farinn að mæða verulega á gróðri og eldri mannvirki stóðust hvorki álagið af ferðamönnunum né af veðri og vindum. Til þessa verkefnis verður varið sex milljónum króna. Á Laugarvatni fara tíu milljónir í að ljúka við þjónustuhús í skóginum. Húsið er reist eftir vinningstillögu úr verðlaunasamkeppi sem efnt var til 2013 um þjónustuhús fyrir þjóðskógana.

Þá verður líka á Suðurlandi varið tíu milljónum króna til áframhaldandi viðhalds og uppbyggingar stígakerfis á Þórsmörk. Þar er einnig meiningin að merkja stíga með öryggismerkjum sem auðvelda björgunarfólki að finna ferðafólk ef eitthvað kemur upp á. Stikur verða merktar með sérstöku kerfi bókstafa og tölustafa sem aðgengilegt verður björgunarfólki.

Á Vesturlandi verður lokið við göngustíg í landi Litla-Skarðs í Norðurárdal sem byrjað var á í fyrra. Stígurinn liggur um skóglendi að fögrum útsýnisstað við gljúfur Norðurár.

Texti: Pétur Halldórsson