Þessa dagana vinnur Helena M. Stefánsdóttir, meistaranemi við Landbúnaðarháskóla Íslands, að rannsóknum á áhrifum skógræktar og landgræðslu á vatnsgæði, vatnshag og vatnalíf í lækjum og ám á Vesturlandi og Hekluskógasvæðinu.

Í vor fékk nýtt rannsóknaverkefni, SKÓGVATN - Áhrif skógræktar og landgræðslu á vatnsgæði, vatnshag og vatnalíf, úthlutað styrk úr Umhverfis- og orkurannsóknasjóð Orkuveitu Reykjavíkur.  Verkefnisstjóri er Bjarni D. Sigurðsson, prófessor hjá Landbúnaðarháskóla Íslands en auk skólans taka Skógrækt ríkisins, Landgræðsla ríkisins, Háskóli Íslands, Veiðimálastofnun og Matís þátt í verkefninu.  Í verkefninu verða rannsökuð áhrif skógræktar og landgræðslu á vatnsgæði, vatnalíf og vatnabúskap en mikilvægt er að auka þekkingu á áhrifum þessara ræktunnar á vatn og vatnalíf.  Þrátt fyrir að vatn sé ein helsta auðlind þessa lands hafa tengsl gróðurfars, vatnalífs og vatnsgæða lítið verið rannsökuð hérlendis og mun sú þekking sem skapast í þessu verkefni því verða mikilvæg, ekki síst fyrir þá sem hyggja á skógrækt og landgræðslu.  Innan verkefnisins verða unnin tvö meistaraverkefni og eins og fyrr segir hefur Helena M. Stefánsdóttir þegar hafið vinnu við annað þeirra.  Rannsóknasvæði verða á Hekluskógasvæðinu auk svæða á Vesturlandi.  Þá er verkefnið mikilvægur hluti af erlendum rannsóknaverkefnum.  Gert er ráð fyrir að vali á tilraunasvæðum og uppsetningu mælitækja verði lokið í lok sumars og rannsóknir hefjist af fullum krafti næsta vor.


frett_06072007_1

Bjarni Diðrik Sigurðsson, Brynhildur Bjarnadóttir og Helena M. Stefánsdóttir velja rannsóknasvæði.


frett_06072007_2

Það getur verið vissara að hafa með sér vöðlur í rannsóknaferðir.Texti: Edda S. Oddsdóttir og Hreinn Óskarsson
Myndir: Edda S. Oddsdóttir