Plöntur bornar úr flutningsrekkum yfir í geymslureiti í plöntudreifingarstöð Skógræktarinnar á Tumas…
Plöntur bornar úr flutningsrekkum yfir í geymslureiti í plöntudreifingarstöð Skógræktarinnar á Tumastöðum Fljóthlíð. Ljósmynd: Trausti Jóhannsson

Önnur sending af trjáplöntum frá gróðrarstöðinni Sólskógum barst sunnlenskum skógarbændum í gær þegar flutningabíll með fullfermi frá fyrirtækinu var affermdur á Suðurlandi, alls 81.712 plöntur í 2.669 bökkum.  Einnig eru hafnir plöntuflutningar frá gróðrarstöðinni Kvistum í Biskupstungum og um helgina fer stærsta sending að Hallormsstað sem Sólskógar hafa sent frá sér í sögu fyrirtækisins.

Hallur Björgvinsson skógræktarráðgjafi tekur út sendingu af alaskaösp. Ljósmynd: Trausti JóhannssonVorið hefur ekki látið á sér standa þetta árið og víðast hvar á landinu er að verða þurrt og frostlaust í jörðu þannig að skógræktendum ætti ekki að vera neitt að vanbúnaði að hefja gróðursetningu. Þó er rétt að beina til fólks að huga að veðurspám og doka við með gróðursetningu ef útlit er fyrir frost og hretviðri.

Bændur á Suðurlandi eru  í óða önn að gera sig klára fyrir gróðursetningar en í næstu viku er svo von á sendingum í aðra landshluta og þá geta bændur í öðrum landshlutum hafist handa við að gróðursetja ef veður og aðstæður leyfa.

Hver bóndi fær tilkynningu um leið og plöntur sem honum eru ætlaðar eru komnar á dreifngarstöðvar. Ástæða er til að brýna fyrir öllum skógræktendum að meðhöndla trjáplönturnar af vandvirkni og sjá til þess að þær þorni aldrei meðan þær bíða gróðursetningar. Plönturnar ætti að geyma á skjólgóðum stað þar sem ekki skín á þau sterk sól og þegar kemur að gróðursetningu er gott að bleyta þær áður en haldið er af stað svo rótarhnausinn sé vel blautur þegar hann kemst í jörð. Gott er að eilítið drjúpi úr hnausnum ef hann er kreistur létt í hnefa. Leiðbeiningar um gróðursetningu er að finna í sérstöku myndbandi Skógræktarinnar:

Í dag er verið að ferma bíl hjá Sólskógum sem fer með stærstu sendingu af trjáplöntum sem Sólskógar hafa sent frá sér. Sendingin fer í dreifingu á Hallormsstað og samstals eru plönturnar um 218.000 talsins. Við fáum nánari fregnir af því eftir helgi en meðfylgjandi myndir voru teknar í gærmorgun þegar verið var að afferma bílinn frá Sólskógum í plöntudreifingarstöð Skógræktarinnar á Tumastöðum í Fljótshlíð.

Reyniviður og birki í bökkum. Ljósmynd: Trausti JóhannssonTexti: Pétur Halldórsson