Á Valþjófsstöðum í Núpasveit er unnið af metnaði að uppgræðslu á rýrum svæðum og sum þeirra eru teki…
Á Valþjófsstöðum í Núpasveit er unnið af metnaði að uppgræðslu á rýrum svæðum og sum þeirra eru tekin til skógræktar. Hvort tveggja byggir undir sauðfjárbúskapinn á jörðinni en í fyllingu tímans verða margvíslegar nytjar af skóginum og bætt búsetuskilyrði.

Hlutverk við landgræðslu og skógrækt gæti treyst byggð í sveitum

Þegar Íslendingar taka af fullum þunga til aðgerða gegn loftslagsvandanum gefst bændum færi á að slá margar flugur í einu höggi. Á Íslandi er mikið rofið land. Um helmingur þess gróðurlendis sem var á landinu við landnám hefur eyðst og ætla má að um helmingur þess sem eftir er sé í lélegra ástandi en við verði unað. Enn eru roföflin að verki á landinu.

Bændur ættu að leika stórt hlutverk í þeim aðgerðum sem stjórnvöld grípa til gegn loftslagsvandanum. Af því að við eigum mikið land til að bæta höfum við mörg ráð gegn loftslagsvandanum, að stöðva gróður- og jarðvegseyðingu, græða upp land, rækta skóg, endurheimta votlendi og efla sjálfbærni. Ekki væri rétt að segja Íslendinga heppna að eiga svo mörg ráð að grípa til í þessum efnum enda eru þessar aðstæður okkar tilkomnar vegna þeirra breytinga sem búseta okkar hefur leitt af sér frá landnámi. Við höfum breytt ásýnd og ástandi landsins mikið.

Ekki ber að lasta forfeður okkar sem ekki vissu betur eða gátu annað. Við vitum hins vegar betur og getum annað. Við vitum til dæmis að enn losnar mikill koltvísýringur úr rofnu landi. Það þýðir að ef við stöðvum rofið og græðum land upp hættir losunin og binding tekur við. Þar með höfum við slegið tvær flugur í einu höggi, stöðvað losun og hafið bindingu. Þar sem mögulegt er og henta þykir getum við bleytt upp í framræstu landi. Þá gerist hið sama, losun minnkar og binding eykst. Hér skal hins vegar rætt um leiðir til uppgræðslu með lággróðri og skógi.

Birkiskóglendi breiðist út

Víða tökum við eftir því að birki er í sókn, einkum þar sem engin búfjárbeit er lengur. Dæmi eru jafnvel um svæði þar sem birki virðist í framför þrátt fyrir beit svo sem á Látraströnd við Eyjafjörð en þar er beitin að vísu mjög lítil. Eitt er víst, birkiskógar landsins eru að stækka. Birki er líka sú trjátegund sem mest er gróðursett af í skógrækt á Íslandi. Kostur birkisins er að það er landnemategund. Birkið á erfitt með að sá sér út í mjög vel gróið land en þar sem það finnur sér göt í sverði nær það að spíra og vaxa upp. Kringum skógræktarreiti er jafnan mikil sjálfgræðsla birkis ef beit hamlar ekki.

Stórkostleg dæmi um sjálfgræðslu birkis má sjá á Suðausturlandi og stórkostlegast á Skeiðarársandi. Sandurinn er að breytast í birkiskóg sem gæti orðið einn sá stærsti á landinu ef fram fer sem horfir, ef ekki stærstur. Þar er náttúran ein að verki. Þegar sandurinn fékk frið fyrir jökulfljótinu gat birkið borist úr Bæjarstaðaskógi og fleiri birkiskógum um allan sandinn og náð að spíra í mosa- og gróðurskáninni sem myndast hefur undanfarin ár.


Frumherjaeðli birkisins virkjað

Það sama gerist í kringum Heklu en þar hjálpum við mennirnir til með Hekluskógaverkefninu. Nýttur er sá mikli kostur birkisins að framleiða mikið fræ frá ungum aldri. Birki er gróðursett og sáð í bletti hér og þar, svokallaðar gróðureyjar. Með hjálp kjötmjöls og fleiri áburðarefna er búin til gróðurskán sem birkið á gróðureyjunum getur sáð sér í. Vert er að ýta enn frekar undir sjálfgræðslu birkis sem víðast og eru ný áform um slíkt í samstarfi Skógræktarinnar og Landgræðslu ríkisins.

Slíkt starf er sérstaklega mikilvægt þar sem áhrifa eldfjalla gætir eins og við Heklu. Öskufall getur kæft og drepið lággróður en birkiskógur þolir töluvert öskufall áður en það verður honum að falli. Það sást vel þegar Eyjafjallajökull gaus fyrir nokkrum árum. Birkið á Þórsmörk varð enn grænna og þróttmeira fyrst á eftir enda áburðaráhrif af öskunni. Askan tók í sig sólarylinn og birkið naut tímabundið minni samkeppni frá botngróðri. Hefði enginn birkiskógur verið á Þórsmörk mætti spyrja sig hvernig gróðurfar væri þar nú.

Í regnskugganum norðan Vatnajökuls er hrjóstugra en í hlýjunni og rekjunni á Suðurlandi. Þar sem þurrt er frá náttúrunnar hendi væri vert að koma upp sérstökum gróðurverndarsvæðum og nærtækt að nefna Hólsfjöll í þeim efnum. Á því svæði er erfiðara að koma birkinu til vegna þurrks en í staðinn mætti grípa til lerkis sem þjónar svipuðu hlutverki. Ef lokatakmarkið er birkiskógur eða birkikjarr mætti nota lerkið sem frumherja og fella það þegar frjósemin og skjólið væri orðið nægilegt fyrir birkið að taka við. Við gætum líka eftirlátið afkomendum okkar að velja hvort þeir vildu lerki- eða birkiskóg í fyllingu tímans, ellegar blöndu af hvoru tveggja.

Bindum kolefni fyrir framtíð heimsins

Enn er óljóst hversu mikið Íslendingar geta talið fram af bindingu í nýjum gróðri í alþjóðlegu kolefnisbókhaldi vegna Parísarsamkomulagsins og annarra loftslagssamninga. En binding í gróðri er ekki bara hugsuð til að uppfylla ákvæði í samningum. Binding er nauðsynleg til að stuðla að áframhaldandi lífi á jörðinni. Á Íslandi eru geysimiklir möguleikar til bindingar. Þar eru allar flugurnar umræddu sem slá má með einu höggi eða fáum. Hafnarsandur í Ölfusi er framúrskarandi dæmi um svæði þar sem binda mætti mikið kolefni á landi sem nú er að mestu auðnin ein. Mikið binst með því að græða landið upp með lággróðri og enn meira ef ræktaður er á því skógur. Á Hafnarsandi er bæði milt og rakt og aðstæður mjög góðar til að rækta gjöfular trjátegundir sem binda mikið. Skógræktin og Landgræðslan vinna nú að undirbúningi skógræktar á svæðinu í samvinnu við sveitarfélagið Ölfus. Á komandi árum verður svæðið líkast til vaxið bæði birkiskógi og nytjaskógi.


Þáttur bænda mikilvægur

Nærtækustu  kostirnir fyrir bændur til bindingar með skógrækt er að stunda nytjaskógrækt á bújörðum sínum. Bændur sem hófu nytjaskógrækt fyrir aldarfjórðungi með fram öðrum búskap eru nú teknir að sjá árangur erfiðis síns fyrir alvöru. Skógunum fylgir aukin gróska á beitilöndum, túnum og ökrum, betra veðurfar, aukið fuglalíf, betri umsetning næringarefna og vatnsbúskapur verður betri. Menn sjá jafnvel að ár og lækir vaxa minna í leysingum á vorin og gróskumikill gróður vex á bökkum þeirra. Skógur beislar roföflin. Fyrstu nytjar af skóginum eru kurlefni undir skepnur, jólatré, stauraefni í girðingar og til eru bændur sem farnir eru að fletta bolum í borð og planka. Í kaupbæti við allt þetta er sú mikla binding kolefnis sem fæst með ræktun hraðvaxta trjátegunda á láglendi.

Viðsjár eru nú í sauðfjárræktinni. Hver veit nema ekki verði undan því vikist að draga úr kjötframleiðslunni. Ef svo fer er nauðsynlegt að huga að því hvernig tryggja megi búsetu áfram í sveitum landsins. Vel má samþætta uppgræðslu og skógrækt við breytta landnýtingu. Bóndi sem drægi úr sauðfjárrækt ætti auðveldara með að taka upp virka beitarstýringu og einhenda sér í landgræðslu og skógrækt á því landi sem mest þarfnast aðhlynningar. Beina mætti greiðslum til slíkra verkefna á sauðfjárbúum svo afkoma sauðfjárbænda rýrni ekki við minnkaða kjötframleiðslu. Engir landgræðslu- og skógræktarsamningar eru nú í gangi í tengslum við tímabundna fækkun sauðfjár. Vert væri fyrir bændur að vekja máls á þeim möguleika til að treysta byggð í sveitum og auka landgæði. Vel mætti beina stuðningi við sauðfjárrækt í auknum mæli að umhverfisverkefnum. Bændur fengju þá greitt fyrir framkvæmd slíkra verkefna þar sem þau eru brýnust.

Tímabundin friðun gæti verið álitlegur kostur á sérstökum landgræðslusvæðum þar sem framtíðarbeitiland yrði byggt upp með landgræðslu og jafnvel skóggræðslu. Hólasandur er gott dæmi um svæði sem bændur ákváðu að friða fyrir beit. Þrátt fyrir að svæðið sé stórviðrasamt, vetur kaldir og sumur svöl er Hólasandur nú að gróa upp og þar verða miklar breytingar á næstu árum og áratugum ef áfram verður unnið og friðun helst. Hvernig landið verður nytjað í framtíðinni mun tíminn einn leiða í ljós. Sem auðn væri það til einskis gagns.

Búskaparskógrækt

Möguleikarnir eru miklir en að síðustu er vert að benda á tilraun til eins árs um skipulagningu búskaparskógræktarverkefna í Húnaþingi vestra. Slíkt kallast agroforestry á útlensku. Áhuginn á þessum verkefnum meðal bænda hefur reynst mjög mikill og nokkur verkefni eru komin af stað til að auka skjól á bújörðum, minnka álag vegna snjóa, rækta upp hagaskóga og fleira. Vonandi verður framhald á slíkum tilraunaverkefnum. Þau gefa tækifæri til ræktunar sérstakra hagaskóga til sjálfbærrar beitar og skjólskóga til að auka skjól og framleiðni fyrir búfjárrækt og akurræktun á láglendi. Þetta má gera í öllum landshlutum.

Bændur kunna til verka, þekkja landið, eiga vélar og hafa hagsmuni af því að landið verði klætt gróskumiklum gróðri. Bændur gætu öðlast mikilvægt hlutverk við bindingu koltvísýrings úr andrúmsloftinu landinu til heilla og heiminum öllum. Í loftslagsbaráttunni geta bændur slegið margar flugur í einu höggi og bætt í leiðinni eigin hag.

Texti og myndir: Pétur Halldórsson