Áhugaverð fræðslumynd um mögulega endurhæfingu skóga heimsins

Hvernig er hægt að koma í veg fyrir frekari eyðingu frumskóga heimsins og er hægt að rækta á ný skóga þar sem þeir hafa horfið? Um þetta er fjallað í fyrstu fræðslumyndinni af þremur í sænsku röðinni The Green Planet. Þátturinn var sýndur á norsku sjónvarpsstöðinni NRK2 í gærkvöldi.

Þessi fyrsti þáttur kallast Forest in Peril sem útleggst skógar í hættu. Þar er meðal annars velt upp þeirri spurningu hverjum sé helst treystandi til að sjá um endurreisn eða endurhæfingu skóga sem annað hvort hafa horfið eða verið skertir mjög. Fæstum detti í hug að fátækt heimafólk á skógarsvæðum sem aldrei hafi búið annars staðar en í heimasveitinni sé rétta fólkið til að vinna verkið. En doktor Sanil Senanayake er á öðru máli. Hann segir í myndinni að mesta vonin sé ekki bundin við fólkið í borgunum, að það bjargi skógum heimsins. Sú von sé helst bundin í fátæku bændafólki. Það geti gróðursett trén og litið eftir þeim fyrstu þrjú árin meðan þau eru að festa rætur og ná vexti.

Að herma eftir náttúrunni

Ranil Senanayake er fæddur á Sri Lanka en stundaði framhaldsnám í kerfisvistfræði við Kaliforníuháskóla í Davis. Hann starfaði sem fræðimaður við Melbourne-háskóla í Ástralíu þar sem hann vann að þróun aðferða til að vernda og viðhalda landi. Einnig kenndi hann skógvistfræði við Monash-háskólann í Melbourne. Hann á heiðurinn að fyrirbæri sem kallast Analog Forestry upp á ensku sem fólk víða um heim hefur tileinkað sér. Það felst í því að rækta nytjaskóga í hitabeltinu og heittempraða beltinu þar sem líkt er eða hermt eftir ferlum náttúrunnar en um leið gert ráð fyrir ábata af skógarnytjum. Dr. Senanayake hefur veitt ýmsum alþjóðlegum samtökum og stofnunum ráðgjöf um líffjölbreytni og endurhæfingu skóga. Hann er nú formaður  Rainforest Rescue International á Sri Lanka, samtaka sem stuðla að endurhæfingu skóga landsins, sjálfbærri nýtingu þeirra og verndun hinnar miklu líffjölbreytni sem þar er í náttúrunni. Þetta er meðal annars gert með því að fræða landsmenn og kenna þeim sjálfbæra lifnaðarhætti og nýtingu.

Bændur bjarga heiminum

Í fyrsta þættinum af fræðslumyndaröðinni The Green Planet er því velt upp að við fyrstu sýn sé það ekki líklegt að maður sem allan sinn aldur hefur alið í heimasveitinni sé einmitt rétti maðurinn til að taka fyrsta skrefið til bjargar heiminum. En Ranil Senanayake segir að stærsta tækifærið felist einmitt í þessum manni. Það séu ekki bankarnir, ekki borgarbúarnir, ekki vísindafólkið sem geti bjargað mestu. Samfélög til sveita séu best til þess fallin að taka að sér endurhæfingu skóganna og tileinka sér sjálfbæra nýtingu þeirra og þar með verndun. Þetta fólk geti gróðursett trén og hlúð að þeim fyrstu árin þar til þau geta séð um sig sjálf. Sérstaklega segir hann þetta eiga við um fátæk bændasamfélög í þriðja heiminum.

Senanayake lýsir því í myndinni hversu neikvæð áhrif skógareyðing hefur á líffjölbreytni og á möguleikana til ræktunar, til dæmis hrísgrjónaræktar. Hann segir að þar sem regnskógum hefur verið eytt en skógarleifar séu enn til staðar í nágrenninu geti 80% af líffjölbreytninni endurheimst á 60 árum. Afganginn taki 400-500 ár að endurheimta. Þennan tíma höfum við ekki og því hafi verið þróaðar aðferðir þar sem líkt er eftir ferlum náttúrunnar til að flýta endurheimtinni. Með aðferðum áðurnefndrar aðferðar, Analog Forestry, megi ná 70% af líffjölbreytninni strax eftir 40 ár í stað þess að það taki 400 ár.

Loftslagsbreytingarnar virða engin landamæri

Í umræddri fræðslumynd er litið til þeirrar ógnar sem stafar af loftslagsbreytingum og fólksfjölgun, hvort sem það er í samabyggðum Norður-Skandinavíu, í Bandaríkjunum, Kína, Indlandi, Indónesíu eða annars staðar. Loftslagsbreytingar virði engin landamæri. Það sé gott að t.d. Bandaríkjamenn auki nú skógrækt en það sé til lítils ef þeir auka um leið innflutning á timbri og timburafurðum frá fátækum löndum þar sem skógar eru að hverfa.

Sagt er frá áhugaverðum verkefnum sem auðug lönd standa að í þriðja heiminum, til dæmis verkefnum sem Norðmenn standa að í Indónesíu með olíusjóð sinn að vopni. Hvergi er skógareyðing meira vandamál í heiminum en í Indónesíu og sú skógareyðing hefur áhrif um allan heiminn. Verkefni Norðmanna felast í því að gera samkomulag við yfirvöld í viðkomandi landi um að þau dragi úr skógar- og jarðvegseyðingu og tilheyrandi kolefnislosun gegn fjárframlagi frá Norðmönnum upp á allt að einum milljarði Bandaríkjadollara. Auk Indónesa hafa Norðmenn gert Brasilíumönnum og Gvæjana-búum sams konar tilboð.

Mikilvægi rannsókna og alþjóðasamstarfs

Rætt er í myndinni um mikilvægt hlutverk alþjóðlegra samtaka og verkefna á borð við IUFRO sem eru alþjóðasamtök um skógrannsóknir, og REDD (Reducing Emissions from Deforestation and forest Degradation) sem er verkefni Sameinuðu þjóðanna um að draga úr kolefnislosun vegna skógar- og jarðvegseyðingar í þróunarlöndunum. Einnig er rætt um mikilvægi rannsókna og að öll lönd þurfi að eiga öflugar rannsóknarstofnanir í skógvísindum. Áðurnefndur Ranil Senanayake bendir á að skógar gefi frá sér þær gufur sem myndi ský yfir jörðinni auk þess sem skógarnir sjálfir hafi kælingaráhrif. Rannsóknir hafi hins vegar sýnt að ef okkur tækist að auka skógrækt í heiminum þannig að skýmyndun frá skógum yxi um aðeins 2% hefði það áhrif á loftslagið á jörðinni sem samsvöruðu því að við skrúfuðum loftslagsbreytingarnar hundrað ár aftur í tímann.

Þáttaröðin The Green Planet var gerð hjá kvikmyndafyrirtækinu Sebra Film í samvinnu við samtökin Global Kunskap sem vinna að því að fræða jarðarbúa um samhengi alls lífs á jörðinni einkum með því að nota myndrænt efni og kvikmyndaefni.

  • Smellið hér til að horfa á fyrsta hluta myndarinnar The Green Planet með norskum texta
  • Sebra Film sem framleiðir fræðsluþáttaröðina The Green Planet. Hægt er að kaupa þáttaröðina alla
  • Global Kunskap, samtök um hið hnattræna samhengi lífs á jörðinni
  • REDD (Reducing Emissions from Deforestation and forest Degradation)
  • IUFRO (International Union of Forest Research Organizations)
  • CIFOR (Centre for International Forestry Research)
  • Rainforest Rescue International


Texti: Pétur Halldórsson