Ráðstefnan verður í Borgarnesi 11.-12. mars

Fagráðstefna skógræktar 2015 verður haldin í Borganesi dagana 11. og 12. mars. Fyrri dagurinn verður haldinn í samstarfi við NordGen sem er norræn stofnun um varðveislu og rannsóknir á erfðaauðlindum. Þetta verður þemadagur með yfirskriftinni „Aukin framleiðni skóga á jaðarsvæðum með trjákynbótum“. Von er á erlendum fyrirlesurum og því fer þessi dagskrá fram á ensku og skandinavísku en ráðstefnurit verður gefið út á íslensku.

Seinni daginn verða flutt ýmis erindi um skógrækt í sinni fjölbreyttustu mynd og nú auglýsir undirbúningsnefndin eftir erindum fyrir þann hluta ráðstefnunnar. Miðað er við að erindin verði 15 mínútur að lengd og svo gefist 5 mínútur til fyrirspurna. Einnig er auglýst eftir veggspöldum.

Áhugasamir fyrirlesarar hafi samband við Sigríði Júlíu Brynleifsdóttur eða Hraundísi Guðmundsdóttur hjá Vesturlandsskógum, eða Aðalstein Sigurgeirsson á Mógilsá, fyrir 23. janúar.

Nánari upplýsingar um dagskrá ráðstefnunnar, skráningu, gistingu og þess háttar verða sendar út seinna í janúarmánuði en lauslega verður dagskráin á þá leið að þriðjudaginn 10. mars safnast fólk á staðinn til skráningar á Hótel Borgarnesi. Klukkan 18 hefst aðalfundur Skógfræðingafélagsins og kl. 20 verður kvöldverður í Landnámssetri sem fólk þarf að skrá sig sérstaklega til. Miðvikudaginn 11. mars verða ráðstefnugögn afhent milli kl. 8.30 og 9 en þá hefst þemadagurinn í samvinnu við NordGen með ýmsum erindum um aukna framleiðni skóga á jaðarsvæðum með trjákynbótum. Um hálffjögurleytið verður skógarferð í Einkunnir og um kvöldið kvöldverður með skemmtidagskrá. Fagráðstefnu skógræktar 2015 lýkur svo fimmtudaginn 12. mars með erindum um ýmis skógfræðileg efni og veggspjaldakynningu.

Þess má geta að á næstu dögum kemur út ráðstefnurit með erindum frá Fagráðstefnunni 2014 sem haldin var á Selfossi 12.-13. mars á nýliðnu ári undir yfirskriftinni „Skógrækt og skipulag“.

Texti: Pétur Halldórsson