Morgunblaðið, þriðjudaginn 6. janúar, 2004 - Bréf til blaðsins

Björgum Dettifossi

SJÓNVARPIÐ sýndi nýlega frétt frá Dettifossi, sem sýndi að fossinn var að brotna niður í flúðir. Í fréttinni var talað við staðkunnan mann, sem taldi að það tæki fossinn 10-20 ár að brjóta sig niður í flúðir.

SJÓNVARPIÐ sýndi nýlega frétt frá Dettifossi, sem sýndi að fossinn var að brotna niður í flúðir. Í fréttinni var talað við staðkunnan mann, sem taldi að það tæki fossinn 10-20 ár að brjóta sig niður í flúðir.

Ég sá fossinn fyrst þegar ég var ungur og lítill og það er sú mynd sem mér er enn í minni, þess vegna minntist ég á það í blaðagrein í Morgunblaðinu snemma á síðasta ári að fossinn væri að fara í flúðir og það þyrfti að fara í aðgerðir þess vegna.

Strax og ég sá fréttina um eyðileggingu fossins fór ég að velta því fyrir mér hvort ekki væri æskilegt að bjarga fossinum með bergtæknilegum aðgerðum, þ.e.a.s. að þrýstidæla sementi í þversnið yfir árfarveginn og bolta saman með bergboltum. Sníða síðan nýjan fossveg með bergskurðarefni. (Þessar aðferðir eru vel þekktar hér á landi við stórmannvirkjagerð.)

Til að ná mér saman í hugarfluginu hringdi ég í þekktan umhverfisverndarmann, sem er mjög fær og fróður um umhverfismál og má segja að sé stórt akkeri fyrir íslenska umhverfisvernd.

Þegar ég spurði hvort hann teldi æskilegt að bjarga fossinum með þessu móti svaraði akkerið að hann teldi það ekki æskilegan kost og lýsti þeirri skoðun sinni að náttúran væri alltaf að breytast og ætti að fá að fara sínu fram, án þess að maðurinn væri að grípa inn í.

Þar sem ég er framkvæmdasinnaður, en veit þó að lýðræðisþjóðfélag byggist á rökum og gagnrökum, fór ég að leita að gagnrökum við skoðanir umhverfis-akkerisins.

Þar sem ég var sjálfur viðriðinn gagnaðgerðir vegna Vestmannaeyjagossins kom mér fyrst í hug að það að bjarga höfninni með hraunkælingu og hindra Friðarhöfn í að verða friðartjörn fugla hefði verið umhverfisslys með eindæmum.

Til að stöðva landeyðingu, sem er eðlileg tilhneiging náttúrunnar, voru settar á laggirnar stofnanir eins og Landgræðsla ríkisins og Skógrækt ríkisins. Báðar þessar stofnanir hafa víða um land sigrast á eðlilegum uppblæstri náttúrunnar með atorku og útsjónarsemi. Það er því í skjóli þessara mótvægisstofnana sem ég þori að gera mína tillögu að björgun Dettifoss.

Byrja þarf á að gera vatns-leiðigarða frá Urðarási að Kreppufjöllum, sem taka við öllu flóðvatni frá norðanverðum Vatnajökli og veita umframvatninu um Hálslón í Fljótsdalsvirkjun.

Byggja þarf stjórnanleg yfirföll fyrir jökulárnar þannig að þær geti haft eðlilegt rennsli. Með því að loka yfirföllum er hægt að fá næði til að bjarga Dettifossi, eins og eðlilegt verður talið.

Vatns-leiðigarðar fyrir norðan Varnajökul eru sennilega arðbærasta framkvæmd á Íslandi en það er þriggja þátta auðlind.

1. Leysingavatnið sem hægt er að virkja borgar margfaldlega framkvæmdina.

2. Hið gríðarstóra auraflæðusvæði milli Urðarháls og Kverkfjalla er stærsta og óvistlegasta eyðimörk landsins, en veðurskilyrði eru þar mjög hagstæð og árstíðasveiflur minni en á láglendi, því er svæðið kjörið fyrir skógrækt, sem væri gott mótvægi við gróðurhúsaáhrif frá stóriðju á Íslandi.

Undir stjórn Skógræktar ríkisins myndu eflaust fyrirtæki eins og Alcoa, Alcan Norðurál og Járnblendið leggja þessu skógræktarverkefni lið og ótaldir margir aðrir.

Með uppgræðslu á svæðinu, þar sem nú eru upptök alls sandfoks, myndi hálendissvæði Norðausturlands gróa upp af sjálfu sér og mjög fljótt með hjálp Landgræðslunnar.

Við lok aldarinnar gæti Ódáðahraun líkst Aðaldalshrauni, vaxið birkikjarri.

3. Með tíð og tíma getur flæðu- og aurasvæðið orðið að besta útivistarsvæði landsins og væri heppilegast að skipuleggja það fyrir þá sem ferðast með eigin gistiaðstöðu og þar með styrkja rekstur ferjusiglinga til landsins og alla ferðamennsku á Austurlandi.

Að lokum: Ég tel að goðin muni ekki reiðast þótt við breytum þjóðgarði norðan Vatnajökuls í gróðursæla náttúruparadís. Það eru ekki einu sinni nein merki þess að goðin hafi orðið fúl vegna plöntunar á erlendum trjátegundum í þjóðgarðinum á Þingvöllum og engin tákn eru um að æsirnir séu á móti umhverfisuppbyggingu.

ELÍAS KRISTJÁNSSON,

Sigurhæð 13,

210 Garðabær.

Frá Elíasi Kristjánssyni