Á kápu Ársrits Skógræktarinnar fyrir 2017 leikur hönnuðurinn, Þrúður Óskarsdóttir, sér með meginlit …
Á kápu Ársrits Skógræktarinnar fyrir 2017 leikur hönnuðurinn, Þrúður Óskarsdóttir, sér með meginlit stofnunarinnar sem er að finna í merki hennar og ýmsu öðru hönnunarefni. Innihaldið er að stórum hluta helgað skógrannsóknum

Verkefnum Rannsóknasviðs er gert hátt undir höfði í nýútkomnu Ársriti Skógræktarinnar fyrir árið 2017. Rakin er saga rannsóknastarfs á Mógilsá og fjallað um helstu verkefnin sem unnið var á árinu 2017 þegar 50 ár voru liðin frá því að starfsemin á Mógilsá hófst.

Ársrit Skógræktarinnar 2017Frá skógardegi sem haldinn var í tilefni hálfrar aldar afmælis skógrannsókna á Mógilsá. Ljósmynd: Pétur HalldórssonRitið hefst að venju á ávarpi skógræktarstjóra undir fyrirsögninni Gengið til skógar. Þar ræðir Þröstur Eysteinsson um skógræktarárið 2017 en veltir einnig upp samhengi skógræktar og umhverfismála. Skógar verði æ mikilvægari auðlind og lykilatriði í þróun yfir í grænt hagkerfi.

Efni ritsins er að öðru leyti skipt eftir fjórum sviðum Skógræktarinnar og er efnismest það sem tilheyrir rannsóknasviði enda var árið 2017 hálfrar aldar afmælisár skógrannsókna á Mógilsá. Edda S. Oddsdóttir, sviðstjóri rannsóknasviðs, fer bæði yfir starfsemi sviðsins og í sérstakri grein rekur hún sögu Mógilsár allt frá því að Norðmenn gáfu þjóðargjöf sem meðal annars skyldi nýta til að koma upp aðstöðu til skógrannsókna.

Allir sérfræðingar rannsóknasviðs eiga greinar í Ársritinu. Venjubundin grein vistfræðinganna Eddu S. Oddsdóttur, Brynju Hrafnkelsdóttur og Halldórs Sverrissonar um áhrif skaðvalda á tré og skóga segir meðal annars frá því að árið hafi verið hagstætt skaðvöldum enda veðurfar milt og sumarið bæði langt og votviðrasamt. Brynja og Edda skrifa einnig grein um rannsóknir á birkikembu og birkiþélu sem eru nýir skaðvaldar á íslenska birkinu. Tegundirnar eru að breiðast út um landið og virðast geta valdið talsverðum skemmdum á birkitrjám en óljóst er hver áhrifin verða til frambúðar.

Fjallað er um verkefnið Líf og æskuvöxtur skógarplantna (LÆS) í grein Eddu, Þorbergs Hjalta Jónssonar og Úlfs Óskarssonar, lektors við Landbúnaðarháskóla Íslands. Þar eru tíundaðar ýmsar rannsóknir og tilraunir sem farið hafa fram í Hvammi Landssveit frá árinu 2013. Ólafur Eggertsson og Arnór Snorrason skrifa um áhrif grisjunar á vöxt skógarins við Hrafnagjá á Þingvöllum. Þeir komast að því að grisjunin auki ekki endilega heildar lífmassaframleiðslu skógarins en geri viðarframleiðsluna hagkvæmari. Samanburðartilraun með nýja og eldri asparklóna er umfjöllunarefni í grein eftir Halldór Sverrisson og Þorbergur Hjalti skrifar stutta grein um athuganir sínar á kostum svartelris sem nánar er fjallað um í nýútkomnu Riti Mógilsár.

Mjög áhugavert verður að sjá hvað kemur út úr athugunum Jóhönnu Ólafsdóttur, Úlfs Óskarssonar og Hreins Óskarssonar á ræktun asparskóga í ólíkum landgerðum. Öspin hefur hlotið uppreisn æru og æ meir er litið til hennar sem mikilvægrar tegundar í lífmassaframleiðslu og jafnvel timburframleiðslu. Meðal þess sem er kannað er hvernig reynist að setja niður mismunandi langa græðlinga. Vel virðist reynast að nota allt að eins metra langa græðlinga og í frekari tilraunum verða reyndir enn lengri græðlingar, jafnvel nokkurra metra langir.

Annað verkefni með alaskaösp er Mýrviðarverkefnið í Sandlækjarmýri sem einnig er tíundað í Ársritinu í grein eftir Bjarka Þór Kjartansson og Brynjar Skúlason segir frá nýjum frægarði kynbætts fjallaþins til jólatrjáaræktar á Vöglum á Þelamörk.

Birkikemba á birkisprota. Nýr landnemi sem herjar á íslenska birkið og skrifað er um í Ársritið 2017. Ljósmynd: Brynja HrafnkelsdóttirSigríður Júlía Brynleifsdóttir, sviðstjóri skógarauðlindasviðs, fer í stórum dráttum yfir starfsemi sviðsins á árinu 2017. Starfsemin er mjög víðtæk og snertir bæði þjónustu við skógrækt á lögbýlum í landinu og starfsemina í þjóðskógum landsins. Enn fremur eru fræmál Skógræktarinnar á höndum skógarauðlindasviðs. Björn B. Jónsson og Hallur Björgvinsson skrifa áhugaverða grein um skjólbeltarækt fyrr og nú en þetta er þáttur sem landeigendur ættu að huga að í meiri mæli. Sigríður Júlía og Arnór Snorrason skrifa því næst grein um áhrif fjórföldunar nýskógræktar á Íslandi á losun og bindingu gróðurhúsalofttegunda. Áhrifin yrðu feiknamikil og ljóst að skógrækt getur skipt sköpum um að loftslagsjafnvægi náist á Íslandi á næstu áratugum. Arnlín Óladóttir skrifar svo um Póllandsferð Íslensks skógræktarfólks haustið 2017 þar sem aðaláfangastaðurinn var frumskógurinn og þjóðgarðurinn Białowieża.

Í kafla samhæfingarsviðs í Ársritinu fer Hreinn Óskarsson sviðstjóri yfir starfsemi sviðsins á árinu og tíundar verkefni þess. Þar er einnig að finna forvitnilega grein eftir Hrein, Björn Traustason, landfræðing á Mógilsá, og Charles Goemans, verkefnastjóra á Þórsmörk. Gert hefur verið átak í merkingu gönguleiða á Þórsmerkursvæðinu og nú er unnið að vefsjá fyrir þessar leiðir þar sem beitt verður nýjustu landupplýsingatækni. Vefsjáin mun bæði nýtast við skipulag og framkvæmdir á gönguleiðum en einnig ferðafólki sem leiðirnar notar.

Ferðafélagar úr röðum skógræktarfólks sem fóru í kynnisferð til Svíþjóðar skrifa grein um ýmislegt sem þar bar fyrir augu sem snertir ekki síst viðarvinnslu, úrvinnslu- og byggingariðnað. Ferðina skipulagði Björn Bjarndal Jónsson í samvinnu við sænska skógarbóndann Göran Espmark og í ferðinni fékk hópurinn meðal annars að kynnast því hvernig Svíar halda skógardaga, nokkuð sem nýtist vel í uppbyggingu skógarmenningar hér á landi. Ólafur Oddsson fræðslustjóri skrifar um fræðslumál á tímamótum og Björn Bjarndal um afurðamál og loks er í Ársritinu ársreikningur Skógræktarinnar ásamt yfirliti um fjármál og listi yfir alla sem voru á launaskrá hjá stofnuninni, allt árið eða hluta úr árinu. Enn fremur er minnst Sherryjar Curl skógræktarráðgjafa sem féll óvænt frá í lok ársins.

Um hönnun Ársritsins sá Þrúður Óskarsson og Hrafn Óskarsson lagði til ljósmyndir. Pétur Halldórsson ritstýrði en ritið var prentað á visthæfan hátt í Ísafoldarprentsmiðju og uppfyllir kröfur norræna Svansmerkisins.

Ársrit Skógræktarinnar má nálgast á prenti á starfstöðvum eða hlaða niður á vefnum.

Ársrit Skógræktarinnar 2017Svo er látið fljóta hér með myndasafn frá hátíðahöldum vegna 50 ára afmælis skógrannsókna á Mógilsá. Hátíðin fór fram á Mógilsá í sól og blíðu um miðjan ágúst.