Miklar breytingar urðu á starfsemi S.r. á Suðurlandi í upphafi árs 2002. Loftur Jónsson sem gegnt hafði starfi skógarvarðar frá júní 2000 hætti störfum og við starfi hans tók undirritaður. Tveir nýir starfsmenn voru ráðnir til starfa í upphafi árs: Ólafur Erling Ólafsson (Óli finnski) og Jóhannes Sigurðsson (Jói á Ásólfsstöðum) bóndi á Ásólfsstöðum í Þjórsárdal. Arinbjörn Þorbjörnsson fór í starfsdvöl hjá Thy Statsskovdistrikt fyrstu þrjá mánuði ársins og lærði þar margt nytsamlegt af starfsbræðrum sínum. Er hann aftur kominn til starfa hér á landi þegar þetta er ritað.

Helstu verkefni skógarvarðar voru að setja sig inn í öll mál sem viðkoma skógarverði. Er því verki ekki lokið enn. Mörg þessara mála eru æði sérkennileg og hafa lítið með skógrækt að gera s.s. rekstur á tjaldsvæði, útleiga starfsmannahúss á Tumastöðum og hjólhýsasvæði í Þjórsárdal. Fjárhagsáætlun fyrir árið 2002 var gerð auk venjulegra skrifstofuverka. Reyndi skógarvörður ennfremur að taka sér umsamið leyfi til skrifta en ekki hefur það tekist nema eina viku.

Í Þjórsárdal hefur verið unnið við grisjun auk hefðbundins viðhalds á tækjum. Á Tumastöðum hafa Hrafn og Tési unnið við viðhald tækja, fræhreinsun, klipping græðlinga (sjá mynd), ræktun skógarplantna, vegagerð og ýmislegt fleira. Nú er sáning að fara í gang svo þeir eru síður en svo verkefnalausir. Plöntusala verður ekki opin á Tumastöðum eins og flestir kannast við en eldri pantanir verða afgreiddar. Á Selfossi hefur staðið yfir smíði á náðhúsi allmiklu sem Óli og Jói skrúfuðu saman af mikilli elju. Haukadalshús var endurnýjað að nokkru leyti t.d. skipt um húsgögn í stofu og borðstofu, húsið var málað að innan, nýjar dýnur og rúm keypt, sængursett og koddar keyptir. IKEA styrkti þetta bæði með afslætti og styrk. Í Þjórsárdal var borað eftir heitu vatni sem skilaði 12 lítrum á sekúndu af 58°C heitu vatni. Er þetta gríðarleg búbót í Þjórsárdal. Kaldavatnsmál hafa verið í ólestri í Þjórsárdal fram til þessa og hefur yfirborðsvatn verið notað til neyslu. Nú hefur Síminn hf borað tvær holur í landi Skriðufells og stendur til að S.r. fái aðgang að vatni úr þeim.

Mikið stendur til á næstu mánuðum hvað varðar gróðursetningu á Suðurlandi enda miklar plöntubirgðir sem koma þarf í jörð. Langtímatilraunir í Skógrækt verða settar niður á Tumastaðalandi og í Gunnarsholti og verður nýr plógur Landgræðslunnar notaður við það verk.

Hreinn Óskarsson