Látinn er Árni Guðmundsson í Múlakoti í Fljótshlíð tæplega 76 ára gamall. Árni starfaði um árabil og fram á síðasta dag fyrir Skógrækt ríkisins í Múlakoti í Fljótshlíð. Í Múlakoti er að finna eitt af eldri og merkilegri trjásöfnum á Íslandi og er það sprottið upp úr gömlu gróðrastöðinni í Múlakoti sem stofnuð var 1935.

Ólst Árni upp á staðnum, bjó þar alla tíð og bar miklar tilfinningar til hans. Sýndi Árni það í verki því fáir aðrir hefðu haldið trjásafninu jafn fallegu og snyrtilegu og hann. Árni var fróður um sögu skógarins í Múlakoti og var gaman að rifja upp með honum sögur af starfseminni fyrr á árum. Fróðlegt var að heyra frásagnir af þeim tíma er Hekluaska lagðist yfir trjásafnið í 1947 gosinu, sem og þeim aðbúnaði sem fyrstu starfsmenn Skógræktarinnar á Suðurlandi bjuggu við á staðnum. Það gustaði ekki af Árna heldur fór hann hljóðlega um og gerði ekki mikið úr sínum verkum þó hann skilaði meira verki en margur annar. Samstarfsfólk hans hjá Skógrækt ríkisins vill hér með þakka Árna fyrir góð kynni.