Ólafur Eggertsson, sérfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar, er meðal höfunda nýrrar vísindagreinar sem birtist í júníhefti vísindatímaritsins Global and Planetary Change. Þar er uppruni rekaviðar á norðanverðu Langanesi rakinn að mestu til vatnasviðs Yenisei-fljótsins um miðbik Síberíu og timbrið er að stórum hluta lerki og fura sem óx upp á síðustu öld. Gangi spár um minnkandi hafís eftir gera greinarhöfundar ráð fyrir því að enginn hafís berist lengur til Íslands eftir um fjörutíu ár.
Um 200 nemendur frá Fjölbrautaskóla Suðurlands unnu að því á degi jarðar 22. apríl að stinga aspargræðlingum í rakan sandinn. Áhersla var lögð á vandaða vinnu frekar en afköst og ánægjan skein úr andlitum flestra í hópnum. Stefnt er að því að allir nemendur skólans fái að gróðursetja á hverju vori framvegis.
Í apríllok var unnið að því í ræktunargámi Skógræktarinnar á Vöglum í Fnjóskadal að græða úrvalsefni af sitkabastarði á grunnstofna sem í fyllingu tímans verða gróðursettir í frægarða til framleiðslu á íslensku fræi til skógræktar.
Snemma árs og fram í sumarbyrjun er eldhættan mest í gróðurlendi. Mikilvægt er að huga vel að brunavörnum og eiga handhægan búnað sem fljótlegt er að grípa til ef eldur kviknar í gróðri. Skógræktin tekur ásamt nokkrum öðrum stofnunum, fyrirtækjum og samtökum þátt í að efla fræðslu um varnir gegn gróðureldum. Út er komið fræðslumyndband hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um þessi efni.
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra heimsótti aðalskrifstofu Skógræktarinnar á Egilsstöðum í morgun og ræddi við Þröst Eysteinsson skógræktarstjóra. Hún segir að hjarta skógræktar á Íslandi sé á Austurlandi.