Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur birt umbótaáætlun vegna bókhalds Íslands um losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis vegna landnotkunar. Skógræktin tók þátt í gerð áætlunarinnar og hlutverk stofnunarinnar er m.a. að skila inn gögnum fyrir um stærð skóglendis og bindingu skóga og sjá um bókhald um þróun birkiskóglendis og viðarafurðir. Mikilvægt hlutverk stofnana við vinnu að losunarbókhaldi er stöðug endurskoðun og rýni til að tryggja að gögn og upplýsingagjöf Íslands uppfylli alþjóðlegar kröfur.
Heimsdagur IUFRO, alþjóðasamtaka skógrannsóknarstofnana, verður haldinn 28.-29 september. Á dagskránni eru m.a. margvíslegar kynningar á verkefnum sem tengjast skógrannsóknum vítt og breitt um heiminn. Klukkan 13.45 fyrri daginn flytur Edda Sigurdís Oddsdóttir, sviðstjóri rannsóknasviðs Skógræktarinnar, erindi um áskoranir og tækifæri sem felast í nýskógrækt sem loftslagsaðgerð í trjálausu landi.
Loftmyndir ehf. og Landmælingar Íslands hafa undirritað tímamótasamning um aðgengi að loftmyndum Loftmynda ehf. fyrir allar A-hluta ríkisstofnanir. Þetta er fagnaðarefni fyrir skógrækt á Íslandi því loftmyndir verða æ mikilvægara tæki til áætlanagerðar í skógrækt, við skógmælingar og úttektir.
Skógræktin tekur þátt í átaki til söfnunar og sáningar á birkifræi nú í haust með sama sniði og í fyrra. Átakið er skipulagt með Landgræðslunni í samvinnu við nokkur samtök og fyrirtæki. Öfugt við síðasta ár er mest fræ að finna norðan- og austanlands en minna á Suður- og Vesturlandi. Alls staðar er fólk þó hvatt til að fara út og leita því lengi má finna fræ þótt ekki sé metár á öllum svæðum.
Skógræktin þarf mikið magn af stafafurukönglum til að anna eftirspurn eftir stafafurufræi til sáningar. Skógræktin greiðir fyrir köngla, sé þeim safnað samkvæmt leiðbeiningum. Stafafura tekur tvö ár í að þroska köngla. Fyrra árið myndast litlir vísar að könglum og seinna árið fullþroskaðir könglar, sem sitja við upphaf árssprota síðasta árs.