Efnahagsráð Sameinuðu þjóðanna í Evrópu, UNECE, býður til tveggja klukkutíma hringborðs um barrskógabeltið og framtíð þess í hlýnandi loftslagi mánudaginn 15. mars. Þar verður m.a. rætt um aðgerðir til að auka viðnámsþrótt vistkerfa í barrskógabeltinu og aðlögunarmátt gagnvart loftslagsbreytingum.
Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO, hvetur námsfólk, kennara, fræðifólk og forystufólk í skólakerfinu til að aðstoða við að kynna verkefnið Global Forest Education Project á samfélagsmiðlum. Ekkert þarf til nema snjallsíma og góð skilaboð um mikilvægi skógartengdrar fræðslu og menntunar.
Eldsvoði varð í Haukadal síðastliðinn fimmtudag þegar bálskýlið í þjóðskóginum þar brann til kaldra kola. Skýlið sem var reist árið 2017 var stórt og stæðilegt og stóð í Hákonarlundi í Haukadalsskógi. Óvíst er um endurreisn skýlisins.
Í jólablaði Fréttabréfs Skógræktarfélags Sandvíkurhrepps sem kom út síðla á nýliðnu ári er ýmislegt fróðlegt og áhugavert að finna. Meðal efnis í blaðinu er frásögn Böðvars Guðmundssonar skógfræðings sem starfaði síðast sem skógræktarráðgjafi hjá Skógræktinni og þjónaði skógarbændum á Suðurlandi. Böðvar lét af störfum hjá Skógræktinni 2019 en starfar áfram fyrir Skógræktarfélag Árnesinga eins og hann gerði raunar með fram störfum sínum hjá Skógræktinni einnig. Böðvar hefur frá ýmsu að segja.
Björn Bjarndal, skógarverkfræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá Skógræktinni, talar um verðmæti nytjaskóga í lífsstílskaffi Borgarbókasafnsins að Gerðubergi í Reykjavík miðvikudagskvöldið 10. febrúar kl. 20. Nauðsynlegt er að skrá sig ef fólk vill fara á staðinn og hlusta en fundurinn verður líka rafrænn og allir geta fylgst með streymi á Facebook.