Orkubú Vestfjarða hefur gert verksamning við Skógræktina um ráðgjöf vegna þróunar á kolefnisverkefni með skógrækt á þremur jörðum í Arnarfirði sem allar eru í eigu Orkubúsins. Samtals er ráðgert að rækta skóg á um 235 hekturum. Þar með er hafinn undirbúningur að fyrsta vottaða kolefnisbindingarverkefninu á Vestfjörðum.
Loftslagsvænn landbúnaður sem er samstarfsverkefni, Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, Landgræðslunnar, Skógræktarinnar, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins hlýtur hvatningarviðurkenningu á Reykjavíkurborgar og Festu 2021. Í verkefninu vinna nú 40 bændur að verkefnum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og binda kolefni.
Á loftslagsráðstefnunni COP26 sem lauk í Glasgow um helgina, staðfestu aðildarríki loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna mikilvægi þess að halda hækkun hitastigs jarðar undir 1,5°C. Staðfestingin er mikilvæg fyrir áframhaldandi baráttu gegn loftslagsbreytingum. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir samkomulag 197 aðildarríkja Loftslagssamningsins um stærstu málefni samtímans gefa tilefni til bjartsýni.
Þrátt fyrir ferðatakmarkanir gekk sjálfboðastarf á Þórsmerkursvæðinu vel í sumar og skiluðu 30 sjálfboðaliðar frá ýmsum löndum starfi sem mælist í alls ríflega 170 vinnuvikum. Meðal annars var lokið við endurbætur á Valahnúki þar sem eru einhverjar fjölförnustu gönguleiðir á svæðinu. Skráning sjálfboðaliða fyrir næsta sumar er hafin og umsóknarfrestur er til 15. desember.
Út eru komin á Youtube-rás Skógræktarinnar sextán myndbönd úr ferð skógræktarfólks af Austurlandi sem farin var til vesturstrandar Norður-Ameríku haustið 2013. Þar voru meðal annars skoðuð hæstu, mestu og elstu tré í heiminum, farið á slóðir stafafuru, sitkagrenis og fleiri merkra trjátegunda. Myndefnið tók Hlynur Gauti Sigurðsson en Kolbrún Guðmundsdóttir sá um samsetningu ásamt Hlyni.