Merkur áfangi hefur nú náðst í þróun og nýtingu viðarafurða á Íslandi. Íslenskt sitkagreni hefur hlotið vottun sem þarf til að framleiða megi úr því viðurkennt límtré í mannvirki. Gæðastjóri hjá Límtré Vírneti segir að með einbeittari ræktun á nytjaviði til slíkrar framleiðslu ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu í framtíðinni að framleiða alíslenskt límtré. Hér vanti þó einsleitari framleiðslu og þróaðri vinnsluferli timburs frá fellingu að vinnslustað.
Fjölbreytt og þverfagleg meistaraverkefni við rannsóknir er tengjast endurheimt birkiskóga eru nú í boði innan verkefnisins Endurheimt birkivistkerfa á 21. öld - áskoranir, leiðir og ávinningur (BirkiVist) sem nýlega hlaut styrk úr markáætlun um samfélagslegar áskoranir. Að verkefninu standa Landbúnaðarháskóli Íslands, Landgræðslan, Háskóli Íslands, Listaháskóli Íslands, og Skógræktin í samstarfi við við fleiri stofnanir, sprotafyrirtæki og aðra aðila á sviði landgræðslumála.
Notendur rafræns dagatals Skógræktarinnar geta nú skipt um skjámynd á tölvum sínum og sett inn dagatal aprílmánaðar. Á því er ljósmynd Atla Arnarsonar ljósmyndara af sveppnum guleggjahemlu.
Nýlega er búið að grisja í þrítugum lerkireit í þjóðskóginum Höfða á Héraði. Var það verktakafyrirtækið 7, 9, 13 ehf. sem sá um verkið og gerði það í alla staði vel með sinni skógarhöggsvél og útkeyrsluvél. Skógurinn var nokkuð þéttur fyrir grisjun og var rúmur helmingur trjánna felldur, enda þurfa trén sem eftir standa nægt rými til að halda vexti áfram.
Loftslagssjóður hefur úthlutað rúmum fjórum milljónum króna til nýsköpunarverkefnis sem Skógræktin tekur þátt í. Þróuð verður aðferð til að nýta íslenskan jarðvarma til að þurrka timbur á hagkvæman og umhverfisvænan máta. Með þessu gæti íslenskt timbur orðið samkeppnishæfara og kolefnisspor framleiðslunnar eitt hið minnsta í heiminum.