Skógræktin hefur gert samstarfssamning við Súrefni, ungt sprotafyrirtæki sem býður fólki og fyrirtækjum að gróðursetja tré til kolefnisbindingar. Fyrsti Súrefnisskógurinn verður í Símonarskógi á Markarfljótsarum en einnig hefur verið tekið frá svæði fyrir Súrefni á Tumastöðum í Fljótshlíð.
Með nýsamþykktum stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar flytjast málefni skógræktar og þar með Skógræktarinnar yfir í nýtt matvæla- sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti. Í sáttmálanum er rætt um hvata til aukinnar skógræktar og vottaðar kolefniseiningar í landbúnaði og annarri tengdri landnotkun. Svandís Svavarsdóttir er nýr ráðherra skógarmála.
Sjálfboðaliðastarf Skógræktarinnar á Þórsmörk og nágrenni hefur gefið út úrval af ljósmyndum sem sjálfboðaliðar tóku á svæðinu á liðnu sumri þar sem unnið var að stígagerð, stígaviðhaldi og landbótum. Opnað verður 15. desember fyrir umsóknir um sjálfboðaliðastörf næsta sumar.
Skógræktin og nýsköpunarfyrirtækið Yggdrasill Carbon ehf. (YGG) hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um fyrirhugaða samvinnu varðandi skógræktarverkefni til kolefnisbindingar. Skógræktarstjóri segir mikla þörf fyrir þekkingarfyrirtæki á þessu sviði á Íslandi.
Alþjóðlega stofnunin um timbur úr hitabeltinu, ITTO, hefur ásamt IUFRO, alþjóðasambandi skógrannsóknarstofnana, gefið út röð námsefnispakka fyrir framhaldsskóla- og háskólanema til notkunar við kennslu um endurreisn skóglendis og skógarlandslags. Námsefnið er ókeypis.