Samningur hefur verið undirritaður við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og umhverfis- og auðlindaráðuneytið um að verkefnið Loftslagsvænn landbúnaður verði stækkað og nautgripabændum boðin þátttaka í því. Auglýst hefur verið eftir fimmtán þátttökubúum í nautgriparækt sem hafa áhuga á að setja sér skriflega aðgerðaráætlun fyrir búreksturinn, hrinda markmiðum í framkvæmd og vera virkir þátttakendur í vegferð landbúnaðarins að loftslagsvænum lausnum.
Íslendingar hlutu fimm af átta styrkjum sem úthlutað var í vor í samvinnu NordGen og Norrænna skógrannsókna, SNS. Megináherslan í íslensku umsóknunum var á skógarplöntuframleiðslu og rannsóknir sem henni tengjast. Alls nemur upphæð styrkjanna sem renna til Íslands 62.000 norskum krónum sem samsvarar tæpum 900.000 íslenskum krónum.
Framkvæmdir við skógrækt eru hafnar á Ormsstöðum í Breiðdal. Þar verður gróðursett til skógar á um 140 hekturum lands á næstu tveimur árum með aðstoð frá samtökunum One Tree Planted. Ummerki um þá jarðvinnslu sem þar fer nú fram hverfa á fáum árum en jarðvinnslan flýtir fyrir því að skógur komi í landið.
Heimsþing um skóga verður haldið í fimmtánda sinn í Seoul, höfuðborg Suður-Kóreu, dagana 2.-6. maí 2022. Frestur til að skila inn útdráttum úr fyrirlestrum, veggspjöldum og myndböndum er til 30. júní 2021. Frestur til að sækja um hliðarviðburði er til 20. júlí.
Keppendur frá Skógræktinni stóðu sig best í gróðursetningu skógarplantna í gróðursetningarkeppni sem haldin var nýverið á Hafnarsandi í Ölfusi. Auk gróðursetningar trjáplantna með geispu var keppt í gróðursetningu og greiningu sumarblóma og þegar upp var staðið urðu öll liðin þrjú sem kepptu jöfn að stigum.