Alþjóðlegri viku vatns hjá Sameinuðu þjóðunum verður fagnað með fimm daga rafrænum viðburði dagana 23.-27. ágúst. Skógasvið FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnunar SÞ, heldur þrjár málstofur um skóga og vatn þar sem fjallað er um hvernig skógar geta flýtt fyrir því að byggja upp mótstöðuafl gegn þeim umhverfisógnum sem að jörðinni steðja, meðal annars að vatnsauðlindinni.
Skógræktarfélag Reykjavíkur efnir til gróðursetningardags laugardaginn 14. ágúst þar sem höfuðborgarbúum gefst kostur á að leggja sitt af mörkum í að rækta útivistarskóg framtíðarinnar í hlíðum Úlfarsfells.
Í grein í nýútkomnu Ársriti Skógræktarinnar 2020 er greint frá niðurstöðum rannsókna á þremur helstu eðliseiginleikum síberíulerkis, rúmþyngd, beygjustyrk og stífni. Í ljós kemur að lerki hefur mun meiri beygjustyrk en önnur barrtré í íslenskri skógrækt.
Umræða um að stór hluti skógarbænda búi ekki á jörðum sínum er ekki byggð á sterkum rökum. Þrír fjórðu þeirra búa á jörðum sínum eða í sama landshluta. Einn af hverjum fimm hefur búsetu á höfuðborgarsvæðinu. Annar landbúnaður, ferðaþjónusta eða önnur atvinnustarfsemi fer fram á 70% skógarbýla. Frá þessu segir í grein í Ársriti Skógræktarinnar 2020.
Tilraun til að kanna aðstæður til skógræktar á Mosfellsheiði fór af stað með gróðursetningum haustið 2019 og vorið 2020. Meginmarkmið tilraunarinnar er annars vegar að kanna áhrif umhverfisaðstæðna á vöxt plantna og hins vegar að athuga hvort beit hafi áhrif á vöxt og lifun trjáplantna. Tilraunin er unnin fyrir Kolvið og fjallað er um hana í Ársriti Skógræktarinnar 2020.