Athyglisvert samspil lúpínu og birkis getur að líta á Grásteinsheiði skammt sunnan Húsavíkur þar sem land er illa farið eftir aldalanga ofbeit. Engin gróðurframvinda hefur verið á svæðinu þrátt fyrir áratuga friðun og rofið heldur áfram ef undanskilin eru svæði þar sem lúpínu var sáð í mela árið 1993. Mest er framvindan þar sem birki var gróðursett með lúpínunni. Annars staðar er lúpínan heldur farin að láta undan síga og fátt kemur í staðinn. Skógræktin hefur gefið út myndband sem sýnir þetta samspil mjög vel.
Ævagömul japönsk aðferð var notuð til að meðhöndla utanhússklæðningu úr íslensku lerki sem nú prýðir nýtt sumarhús hér á landi. Aðferðin var notuð á lerkiklæðningu frá Hallormsstað. Aðferðin felst í því að brenna eða sóta yfirborð viðarins sem gefur honum sérstakt útlit. Kolað ysta lag viðarins verndar hann gegn veðrun.
Óskað hefur verið eftir umsögnum innan Evrópusambandsins um tillögu að nýrri skóga- og skógræktarstefnu fyrir sambandslöndin. Þar er leitað jafnvægis milli verndunar og nýtingar en einnig viðurkennt það mikilvæga hlutverk sem skógar og skógrækt hefur á tímum loftslagsbreytinga og í uppbyggingu á grænu, sjálfbæru hringrásarhagkerfi í stað ósjálfbærs hagkerfis sem byggist á einstefnunýtingu auðlinda jarðarinnar. innan Evrópusambandsins um tillögu að nýrri skóga- og skógræktarstefnu fyrir sambandslöndin.
Að því er spurt í aðsendri grein í nýjasta tölublaði Bændablaðsins hvort tækifæri felist í kolefnisbindingu. Þar kemur fram að nú sé unnið að fýsileikagreiningu kolefnisbindingar í Skútustaðahreppi og Þingeyjarsveit sem lið í samstarfsverkefni þessara sveitarfélaga, Nýsköpun í norðri. Gera megi ráð fyrir að út frá landkostum og hóflegri nýtingu lands til bindingar megi binda árlega 300-500 þúsund tonn af koltvísýringi á ári í þessum tveimur sveitarfélögum. Sá markaður sem nú er að myndast í heiminum fyrir kaup og sölu kolefniseininga feli í sér tækifæri fyrir íslenska bændur og aðra landeigendur.
Notendur rafræns dagatals Skógræktarinnar geta í dag skipt um skjámynd á tölvum sínum og sett inn dagatal febrúarmánaðar. Á því er ljósmynd Atla Arnarsonar ljósmyndara af físisvepp.