Þeir þættir í umhverfinu sem hafa áhrif á hvernig maðurinn upplifir það verða meðal þess sem fjallað verður um á námskeiðinu Maður og skipulag sem haldið verður í húsum LbhÍ á Keldnaholti í Reykjavík og hefst 21. ágúst. Gunnar Ágústsson skipulagsfræðingur kennir.
Starfstöð Skógræktarinnar á Hallormsstað hefur sent frá sér myndband þar sem sýnt er hvernig skógur sem kominn er að endurnýjun er gjörfelldur svo viðhalda megi góðum vexti í skóginum og nýta afurðirnar. Timbrið var selt Skógarafurðum ehf. í Fljótsdal sem tók bolina til flettingar og vinnslu.
Gestir á tjaldsvæðunum í Atlavík og Höfðavík Hallormsstaðaskógi geta nú flokkað úrgang sinn enn betur en fyrr því nú hefur sorpflokkum verið fjölgað í sjö. Æ betur gengur að fá fólk til að flokka. Aðsókn að tjaldsvæðunum í skóginum hefur verið góð það sem af er sumri.
Bæklingur Skógræktarinnar um Vaglaskóg hefur verið endurnýjaður með nýju og endurbættu gönguleiðakorti af skóginum. Fimm stikaðar gönguleiðir eru í skóginum og einnig liggur um hann endilangan reiðleið, um fjögurra kílómetra löng. Í bæklingnum nýja má meðal annars lesa um gömlu bogabrúna og plöntutegund sem hvergi vex annars staðar á landinu, engjakambjurt.
Samráðsfundir bænda með fulltrúum Skógræktarinnar fóru nýverið fram með skógargöngu í skógum bænda í öllum landshlutum. Fundirnir tókust afar vel og sköpuðust frjóar og gagnlegar umræður.