Vel hefur viðrað til að sækja jólatré í þjóðskógana þetta árið. Hæsta torgtréð sem tekið var þetta árið reyndist vera 11,5 metra hátt og kom af Vesturlandi. Trén líta vel út í ár í öllum landshlutum. Veirufaraldurinn hefur ekki haft áhrif á vinnuna í skóginum en kemur hins vegar í veg fyrir hefðbundna viðburði í skógunum í aðdraganda jólanna. Allir ættu þó að geta nælt sér í ilmandi íslenskt jólatré. Þá eru líka íslenskir könglar til sölu í visthæfum pappaumbúðum auk greina, skreytingaefnis, eldiviðar og fleira úr skóginum.
Komnir eru á markað í umhverfisvænum neytendaumbúðum íslenskir jólakönglar sem henta vel í jólaskreytingar. Fáanlegir eru könglar af lerki, stafafuru og rauðgreni og þeim er pakkað inn í visthæfar umbúðir úr pappa sem er skógarefni. Sömuleiðis eru seldar jólagreinar. Þessar vörur eru afrakstur samstarfs Skógræktarinnar og fangelsanna.
Skógræktin auglýsir eftir umsóknum um styrki til kolefnisbindingar með skógrækt á vegum félaga og félagasamtaka. Verkefnið kallast Vorviður og er hluti aðgerðaráætlunar stjórnvalda í loftslagsmálum. Umsóknarfrestur um styrki fyrir árið 2021 er til 15. janúar.