Undanfarna mánuði hefur Ingvar P Guðbjörnsson, verkefnisstjóri hjá Félagi skógarbænda á Suðurlandi, unnið að því fyrir félagið, með styrk frá Uppbyggingarsjóði Suðurlands, að kanna hagkvæmni þess að hafin verði viðarvinnsla úr sunnlenskum skógum. Niðurstöður verða kynntar í félagsheimilinu Þingborg í Flóa laugardaginn 25. nóvember kl. 10.
Bandarísku skógverndar- og skógræktarsamtökin American Forests hafa tekið saman höndum með Skógræktarfélagi Íslands um gróðursetningu 15.000 trjáplantna á Íslandi í þrjú ár, alls 45.000 plöntur. Gróðursett erá tveimur stöðum, á Eskifirði og við Úlfljótsvatn. Þetta verkefni er hluti af víðtækara samstarfi American Forests við sjóðinn Alcoa Foundation.
Þriggja daga vinnufundi um jafnrétti og fjölbreytni í norræna skógargeiranum lauk á sunnudag með þátttöku tveggja fulltrúa frá Skógræktinni, Sigríðar Júlíu Brynleifs­dóttur, sviðstjóra skógarauðlindasviðs, og Eddu S. Oddsdóttur, sviðstjóra rannsókna­sviðs. stefnt er að því að halda norræna ráðstefnu um konur og skógrækt á hverju ári í tíu ár og sú fyrsta verði í Svíþjóð 2019. Einnig er stefnt að stofnun skógarkvenna­samtaka á Íslandi á næsta ári.
Mögulega mætti auka þvermálsvöxt í ungum skógi með því að grisja fyrr en venjan hefur verið. Á sauðfjárjörðum má beita slíkan skóg eftir grisjun til að hindra vöxt greina eða teinunga af rótum þeirra trjáa sem grisjuð voru burt. Óvísindaleg athugun í þessa veru var gerð á skógræktarjörð í Fljótsdal og sagt er frá henni í nýju myndbandi Skógræktarinnar.
Aðgerðir Íra til bindingar kolefnis með breyttri landnotkun og aukinni skógrækt verða tíundaðar á ráðstefnu sem fram fer í Bændahöllinni í Reykjavík 5. desember. Að ráðstefnunni standa Bændasamtök Íslands, Landbúnaðarháskóskóli Íslands Landgræðsla ríkisins og Skógræktin.