Tvöföldun aðgerðarhraða í skógrækt á Íslandi myndi þýða að binding í íslenskum skógum yrði rúm 425 þúsund tonn árið 2030 og fjórföldun myndi skila tæplega 535 þúsund tonna bindingu af CO2 á ári. Edda S. Oddsdóttir, sviðstjóri rannsóknasviðs Skógræktarinnar, skrifar um skóga, eitt stærsta kolefnisforðabúr jarðar, í grein sem birtist í Bændablaðinu í dag.
Í nýju myndbandi frá Future Forests í Svíþjóð er lögð til þríþætt leið til að sameina markmið náttúruverndar og skógræktar í landinu. Gert er ráð fyrir verndarsvæðum af ákveðinni lágmarksstærð í nytjaskógum til að vernda villtar tegundir og á hinn bóginn verði gjöfular trjátegundir eins og sitkagreni og stafafura notaðar til að ná hámarksframleiðslu skóganna og hámarksbindingu koltvísýrings. Talað er um *túrbótré“ og „túrbóskógrækt“.
Ráðstefna um möguleika í kolefnisbindingu verður haldin í Bændahöllinni í Reykjavík þriðjudaginn 5. desember. Meðal annarra heldur írski sérfræðingurinn Eugene Hendrick erindi um aðgerðir sem Írar hafa ráðist í til þess að binda kolefni með breyttri landnotkun og aukinni skógrækt. Eugene hefur verið einn af aðal­samninga­mönnum Íra í samskiptum við ESB varðandi samninga um kolefnisbindingu með skóg­rækt.
Skógurinn í Brynjudal í Hvalfirði var formlega opnaður sem Opinn skógur laugardaginn 16. september og er hann sextándi skógurinn sem opnaður er undir merkjum verkefnisins Opins skógar. Þetta er meðal efnis í nýútkomnu fréttabréfi Skógræktarfélags Íslands, Laufblaðinu. Þar eru líka upplýsingar um jólatrjáasölu skógræktarfélaganna.
Samtökin Gróður fyrir fólk í landnámi Ingólfs hafa hrundið af stað verkefni sem kallast Vistvangur í samvinnu við Hafnarfjarðarbæ, Skógræktarfélag Hafnarfjarðar og fleiri hafnfirsk félög og stofnanir. Markmið Vistvangs er að klæða örfoka svæði í Krýsuvíkurlandi gróðri.