Ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Jólin nálgast þótt veðurfarið bendi ekki til þess. Úti dimmir þó dag frá degi og hátíð ljóssins kemur fyrr en varir. Þá setjum við upp lifandi íslenskt jólatré og skreytum það með ljósum og glingri. Óðurinn til gervijólatrésins vekur okkur til umhugsunar.
Í sjötta skiptið á sjö árum voru þau Hlynur Gauti Sigurðsson og Sherry Curl leiðbeinendur á námskeiði í ungskógarumhirðu sem fram fór á Héraði um helgina. Farið var yfir fræðilegan og fjárhagslegan ávinning skógarumhirðu fyrri daginn og verklega þætti seinni daginn.
Skógræktarfélag Kópavogs boðar til fræðslufundar fimmtudaginn 26. október kl. 20. Þar flytur Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri erindi í máli og myndum um uppgræðslu og skógrækt á Hólasandi. Þar hefur náðst einstaklega góður árangur við uppgræðslu örfoka lands.
Í nýútkomnu tölublaði héraðsfréttablaðsins Skessuhorns sem gefið er út í Borgarnesi er í dag rætt við Valdimar Reynisson, skógarvörð á Vesturlandi, meðal annars um kolefnisbindingu. Valdimar bendir á að skógrækt sé ein einfaldasta leiðin sem við höfum til að binda kolefni.
Framtíð landbúnaðar á Norðurlandi vestra verður rædd á ráðstefnu sem haldin verður í Félagsheimilinu á Hvammstanga á morgun, föstudaginn 20. október. Meðal frummælenda er Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri og ræðir skógrækt sem þátt í fjölbreyttari landbúnaði.