Í gær, fimmtudaginn 11. ágúst, var haldinn fyrsti fundur framkvæmdaráðs Skógræktarinnar, Þar var rætt um þau meginmarkmið að ná meiri og betri árangri í skógrækt. Ákveðið var að næstu skref í skipulagningu nýrrar stofnunar yrðu að ræða við starfsfólk um framtíðarstörf þeirra, með bæði væntingar þeirra og þarfir Skógræktarinnar í huga. Fundir verða haldnir á komandi vikum með starfsfólki á hverjum vinnustað. Auglýst hefur verið eftir sviðstjóra rannsóknasviðs og á næstu dögum verður auglýst eftir nýjum skógarverði á Suðurlandi.
Umhverfisstofnun Brasilíu hefur stöðvað áform um gerð 8.000 megavatta vatnsaflsvirkjunar sem ráðgerð hafði verið í Tapajós-fljótinu í miðjum Amason-frumskóginum. Lón virkjunarinnar hefði orðið 376 ferkílómetrar að stærð og fært í kaf regnskóg þar sem búa um 12.000 frumbyggjar af Munduruku-þjóðflokknum. Allt ræktað skóglendi á Íslandi er til samanburðar um 400 ferkílómetrar.
Skógræktin óskar eftir að ráða sviðstjóra á rannsóknasviði stofnunarinnar. Rannsóknasvið Skógræktarinnar sinnir alhliða rannsóknum í þágu skógræktar á Íslandi. Miðstöð rannsókna er á Mógilsá við Kollafjörð en rannsóknir eru stundaðar um land allt og rannsóknamenn starfa því einnig á öðrum starfstöðvum stofnunarinnar.
Smáþjóðir um allan heim finna nú vel fyrir áhrifum þeirra loftslagsbreytinga sem eru í gangi á jörðinni. Þar er nú unnið að því að laga stefnumál og þróun að hugmyndunum um sjálfbæra þróun. Hvatt er til nánara samstarfs hins opinbera við atvinnulífið, félagasamtök og samstarfsaðila í þróunarmálum. Þetta kom fram hjá leiðtogum eyja á Kyrrahafi á regnskógaráðstefnu Asíu- og Kyrrahafsríkja sem haldinn var í byrjun mánaðarins í Bandar Seri Begawan, höfuðborg soldánsdæmisins Brúnei á eyjunni Borneó í Suðaustur-Asíu.
Guðmundur Haukur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Vistorku, skrifar grein í Fréttablaðið í dag þar sem hann brýnir Íslendinga til dáða í loftslagsmálum og aðgerða í samræmi við markmiðin sem sett voru á loftslagsráðstefnunni í París í desember. Flugvélar verða áfram knúnar jarðefnaeldsneyti um sinn en til að draga úr áhrifum flugsamgangna á lofthjúpin fram til 2030 má binda koltvísýring sem losnar við flug með skógrækt.