Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur nú lagt fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna nýrrar skógræktarstofnunar. Lagt er til að ný stofnun, Skógræktin, taki við eignum, réttindum og skyldum Skógræktar ríkisins og landshlutaverkefna í skógrækt frá og með 1. júlí 2016. Ráðningarsamningar starfsmanna færast yfir til nýrrar stofnunar.
Faxaflóahafnir hyggjast láta gera úttekt á skógrækt á eignarlandi sínu á Grundartanga við Hvalfjörð. Þar er um 36 hektara asparskógur auk grenis, birkis og fleiri trjátegunda. Tvö stóriðjufyrirtæki hafa hreyft þeirri hugmynd að ráðist verði í verulega skógrækt á Grundartanga.
Árhringir trjánna segja okkur mikla sögu. Nýlega voru teknar sneiðar af nokkrum felldum furutrjám eftir grisjun í Daníelslundi í Borgarfirði til greiningar hjá árhringjafræðingi. Trén eru um hálfrar aldar gömul og áhugavert er að bera árhringina saman við veðurfarsgögn. Meðal annars sést vel hvernig þykkt árhringjanna sveiflast með hitafari en sömuleiðis hvenær trén fara fyrir alvöru að vaxa og mynda við.
Ný göngubrú yfir Markarfljót við Húsadal verður 158 metra löng hengibrú. Brúargólfið verður klætt með íslensku greni úr skógum Skógræktar ríkisins. Brúin gerir eitt af vinsælustu ferðamannasvæðum landsins aðgengilegra en einnig öruggara því brúin verður flóttaleið ef rýma þarf svæðið með litlum fyrirvara vegna vatnavaxta eða annarra náttúruhamfara.
Á fjórða fundi stýrihóps um sameiningu Skógræktar ríkisins og Landshlutaverkefna í skógrækt var farið yfir fyrstu drög að stefnumótunarskjali fyrir nýja stofnun. Slíkt skjal er forsendan fyrir því að hægt verði að hefja fyrir alvöru mótun skipurits. Bandormur hefur verið afgreiddur í ríkisstjórn og úr þingflokkum framsóknar- og sjálfstæðismanna og liggur nú fyrir Alþingi.