Íslensku stjórnmálaflokkarnir virðast vera hlynntir aukinni skógrækt og líta á hana sem vænlega leið til að vinna gegn loftslagsbreytingum og til að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins. Allir helstu stjórnmálaflokkarnir nema Sjálfstæðisflokkurinn svöruðu tíu spurningum Skógræktarinnar um skógræktarmál sem bornar voru upp við flokkana 17. október.
Sýnikennsla í gerð kransa með efniviði úr íslenskri náttúru og íslenskum skógum verður haldin hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur í Heiðmörk laugardaginn 5. nóvember.
Samningur um Þorláksskóga undirritaður í dag. Að honum standai Sveitarfélagið Ölfus, Landgræðsla ríkisins og Skógræktin. Markmiðið er að græða upp land á Hafnarsandi og rækta þar skóga til að verjast náttúruvá, vernda byggð og til fjölbreyttra nytja. Stefnt er að því að fjármögnun verkefnisins og samningagerð verði lokið 1. júní á næsta ári.
Ágrædd sitkagrenitré í frægarði Skógræktarinnar á Tumastöðum í Fljótshlíð þroskast vel og þau fyrstu eru nú farin að mynda fræ. Enn er þess þó langt að bíða að fræframleiðslan komist í fullan gang en á meðan er fræjum safnað í skógarreitum af þeim kvæmum sem best hafa reynst. Gæði fræjanna aukast þegar grisjað er og bestu trén látin standa eftir.
Skoska ríkisstjórnin hefur ákveðið að stórauka framlög til nýskógræktar í nokkrum héruðum landsins. Tilkynnt hefur verið um nýtt 6,5 milljóna punda framlag sem standa á straum af nýskógrækt á 1.200 hekturum lands. Markmiðið er bæði að efla byggðir og binda koltvísýring.