Skógar taka upp gróðurhúsalofttegundina koltvísýring úr andrúmsloftinu og geyma hann. Jafnvel þótt okkur Íslendingum þyki Noregur vera þakinn skógi gætu Norðmenn samt aukið mjög kolefnisbindingu skóga sinna með nýskógrækt. Um þetta er fjallað á vef norsku umhverfisstofnunarinnar, Miljødirektoratet. Fram kemur að árið 2011 hafi nettóbinding koltvísýrings í norskum skógum numið 32 milljónum tonna.
Framtíðarsýn Elkem á Íslandi og eplarækt á Akranesi er meðal umræðuefna á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands sem haldinn verður á Akranesi 15.-17. ágúst. Gestgjafar fundarins eru Skógræktarfélag Akraness og Skógræktarfélag Skilmannahrepps.
Í dag, þriðjudaginn 12. ágúst, gróðursetur formaður loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna, Dr. Rajendra K. Pachauri, tré í Arendal syðst í Noregi með aðstoð norska umhverfisráðherrans, Tine Sundtoft. Gróðursetningin er táknræn athöfn til að undirstrika mikilvægt hlutverk skóga í loftslagsmálunum.
Í þættinum Sjónmáli á Rás 1 var í morgun rætt við Friðþór Sófus Sigurmundsson, landfræðing og doktorsnema, um eyðingu Þjórsárdalsskóga. Friðþór er er einn þriggja höfunda fræðigreinar um eyðingu birkiskóga Þjórsárdals á 350 ára tímabili.
Birki er tekið að gulna í skógum víða um land. Ekki eru það haustlitirnir sem svo eru fljótir á sér heldur lætur birkiryðið óvenjusnemma á sér kræla þetta sumarið. Líklega má kenna það vætunni og hlýindunum sem verið hafa í sumar.