Lögð hefur verið fram á Alþingi tillaga til þingsályktunar um eflingu skógræktar sem atvinnuvegar og sameiningu stjórnsýslueininga á sviði skógræktar og landgræðslu. Lagt er til að skógrækt verði stórefld sem arðsamur atvinnuvegur, Skógræktin, Landgræðslan og landshlutabundnu skógræktarverkefnin verði sameinuð í eitt, ný lög samin um skógrækt og landgræðslu og gerð rammaáætlun til þriggja ára um eflingu skógræktar.
Eftir því sem skógarnir okkar vaxa upp þarf meira að hirða um þá og í fyllingu tímans verður fjöldi fólks að störfum í nytjaskógunum við skógarhögg og endurræktun skóganna. Við stöndum nú á þeim tímamótum að skógarhögg er að orðið að atvinnugrein hérlendis. Meðal þeirra sem hafa atvinnu af skógarhöggi er Benjamín Davíðsson, skógfræðingur í Eyjafjarðarsveit. Hann segir mikil tækifæri í greininni og þau eigi bara eftir að aukast. Þetta sé hins vegar líkamlega erfið vinna, dýrt að koma sér upp nauðsynlegum búnaði og enn sem komið er áhættusamt að ráða til sín mannskap í fasta vinnu.
Um mánaðamótin nóvember-desember var haldið námskeið á Hvammstanga í námskeiðsröðinni Lesið í skóginn. Námskeiðið hélt Skógrækt ríkisins í samstarfi við Farskóla Norðurlands vestra. Á námskeiðinu var unnið með ferskt efni beint úr náttúrunni. Efni sem ella hefði orðið að garðaúrgangi var breytt í nytja- og skrautmuni með hníf og exi.
Skógrækt ríkisins tekur þátt í árlegum jólamarkaði sem haldinn verður í gróðrarstöðinni Barra laugardaginn 14. desember. Til sölu verða jólatré og skógarafurðir, kakó og vöfflur, handverk, jarðávextir, rjúkandi Rússasúpa, skata, harðfiskur, hangikjöt og ýmislegt annað góðgæti til jólanna. Skemmtiatriði verða líka flutt.
Hvar skyldi nú hæsta jólatréð verða fellt í ár? Undanfarnar vikur hafa torgtré og heimilistré verið felld í skógum Skógræktar ríkisins og þau eru farin að prýða götur og torg um allt land. Hæsta tréð í ár kemur reyndar úr heimilisgarði á Egilsstöðum, 47 ára tré sem stendur í miðbænum á Egilsstöðum. En margt er fallegt, stærra sem smærra, sem Skógræktin afhendir viðskiptavinum sínum fyrir þessi jól. Hér eru fregnir frá skógarvörðunum um verkefnin þessa dagana.