Lengsta dvöl sjálfboðaliðahópanna er sex vikur. Þessir hópar fá þó einnar viku frí um miðbik dvalari…
Lengsta dvöl sjálfboðaliðahópanna er sex vikur. Þessir hópar fá þó einnar viku frí um miðbik dvalarinnar til að ganga um landið. Hér er hópur frá því í sumar við skála í Landmannalaugum. Mynd: Melissa Steller.

Merking gönguleiða með númerakerfi Landsbjargar hófst í sumar

Fjórða starfsári sjálfboðaliðasamtakanna Þórsmörk Trail Volunteers er nú lokið. Árangur starfsins á liðnu sumri var mjög góður. Vinnuframlag sjálfboðaliðanna nemur um 250 vinnuvikum. Skráning sjálfboðaliða fyrir næsta ár hefst 15. desember.

Tugir sjálfboðaliða frá ýmsum löndum unnu að margvíslegum verkefnum í Þórsmörk og nágrenni í sumar. Að venju var unnið að viðhaldi gönguleiða með því að stöðva vatns- og vindrof, búa til örugga farvegi fyrir rigningar- og leysingavatn, lagfæra rofsár og skemmdir eftir göngufólk og smíða tröppur og palla þar sem nauðsynlegt er. Einnig var unnið að gönguleiðamerkingum, meðal annars í Hvanngili. Stefnt er að því að allar gönguleiðir á svæðinu verði merktar með sérstöku númerakerfi Landsbjargar sem flýtir fyrir leit að fólki ef óhöpp verða á þessum leiðum. Merking gönguleiða eftir þessu kerfi hófst í sumar.


Reynslan úr Þórsmörk nýtt á Laugaveginum

Síðustu tvö sumur hefur starf sjálfboðaliðanna teygst lengra og lengra frá aðalbækistöðvunum í Langadal og Básum enda mikil þörf á viðhaldi og endurbótum á þeim gönguleiðum sem liggja að Þórsmörkinni, ekki síst Laugaveginum sem nýtur sívaxandi vinsælda.

Vegna þessa hafa verið settar upp vinnubúðir í Hvanngili sem er um 30 kílómetrum norðan við Þórsmörkina. Þar er unnið að svipuðum verkefnum og er verkefni sjálfboðaliðanna meðal annars að bera timbur þangað sem smíða þarf mannvirki. Það er því ýmislegt sem lagt er á sjálfboðaliðana sem vinna verk sín þó af mikilli fórnfýsi og vinnugleði. Í sumar var unnið mikið starf á um 5 km kafla milli Hvanngils og Álftavatns. Einhver kann að spyrja sig hvað Skógræktin sé að bauka svo fjarri skóglendi. Verkefnin á Laugaveginum eru unnin fyrir umhverfisstyrk frá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum og sömuleiðis er Skógræktin í góðu samstarfi við Ferðafélag Íslands. Sú reynsla og þekking sem aflast hefur við stígaviðhald í Þórsmörk og nágrenni er þannig nýtt út fyrir svæðið, íslenskri náttúru og ferðamennsku til heilla.


Íslenskt timbur, já takk!

Allt timbur sem notað er í þessi mannvirki er úr skógum Skógræktarinnar, gjarnan timbur sem ekki nýtist í flettingu. Þetta er því góð nýting á hráefninu. Stundum eru brýr, pallar, tröppur og annað slíkt smíðað að hluta til í Langadal og síðan flutt á sinn stað og klárað þar. Markmiðið er að þessi mannvirki falli eins vel að umhverfinu og mögulegt er og líti helst út fyrir að hafa alltaf verið þarna. Mikið timbur var flutt frá Tumastöðum í sumar vegna þessara verkefna og er vert að þakka fyrirtækinu Volcano Huts í Húsadal sem útvegaði tæki og kostaði flutning á efninu. Þá sáu Kynnisferðir um að flytja sjálfboðaliðana til og frá Þórsmörkinni og eiga skilið þakkir fyrir einnig.

Ómetanlegt vinnuframlag

Ófá dæmi eru um að sjálfboðaliðar sem unnnið hafa hjá Þórsmörk Trail Volunteeers hafi óskað eftir því að fá að koma aftur. Auk erfiðisvinnunnar njóta þeir góðs félagsskapar í stórkostlegri náttúru, upplifa útilegu eða skálagistingu í fjallakyrrðinni og fjölbreytilegt veðurfarið en fá líka tækifæri til að bregða sér í gönguferðir og fjallgöngur. Sjálfboðaliðarnir eru gjarnan áhugafólk um umhverfisvernd og sjálfbært líf og fá útrás fyrir þann áhuga með því að lagfæra skemmdir á náttúrunni og stuðla að því að umferð fólks um náttúruna spilli henni ekki.


Í sumar var efnt til þriggja sérstakra sjálfboðaliðaverkefna fyrir sjálfboðaliða sem höfðu komið áður til að vinna á svæðinu. Hefðbundinn starfstími sjálfboðaliðanna  frá því snemma í júní og fram til ágústloka en nú var skipulagt verkefni við kortlagningu og skiltagerð í maímánuði og annað við hnitsetningu og kortlagningu gönguleiða í byrjun septembermánaðar. Þriðji hópurinn sem skipaður var reyndum sjálfboðaliðum vann í júlímánuði við stígaviðhald og endurbætur á lengri leiðum. Sjálfboðaliðar voru alls um 70 talsins í sumar en að auki unnu fimm alþjóðlegir skólahópar á svæðinu. Samanlagt innti þetta fólk um 250 vinnuvikur af hendi. Vinnuframlag þessa lífsglaða og duglega fólks sem kemur til Íslands í ævintýraleit og til að láta gott af sér leiða er ómetanlegt.

Upplýsingar um sjálfboðaliðastarfið sumarið 2017 verða settar inn á vefinn trailteam.is 15. desember með staðháttalýsingum, umsóknareyðublöðum og fleiru sem tilheyrir. Umsjónarmaður stígaviðhalds í Þórsmörk er Chas Goemans sem tók flestar myndirnar sem hér fylgja og veitti upplýsingar.



Sums staðar þýðir ekki annað en reisa myndarleg mannvirki til að útbúa færar leiðir
sem ekki spilla gróðri og jarðvegi. Þessum mannvirkjum er valinn staður þannig
að þau verði sem minnst áberandi.



Texti: Pétur Halldórsson