f.v. Jón Loftsson, skógræktarstjóri, Lárus Heiðarsson, skógræktarráðunautur og Þór Þorfinnsson, skóg…
f.v. Jón Loftsson, skógræktarstjóri, Lárus Heiðarsson, skógræktarráðunautur og Þór Þorfinnsson, skógarvörður á Hallormsstað.

Í desember sl. ákváðu Sameinuðu þjóðirnar að framvegis skuli 21. mars vera alþjóðlegur dagur skóga. Það er við hæfi að Sameinuðu þjóðirnar hvetji til þess að haldið sé upp á dag skóga, því mikilvægi skóga heims verður seint ofmetið. Það hæfir einnig að velja til þess vorjafndægur, þegar fólk horfir gjarnan fram á við og fyllist eftirvæntingu eftir sumrinu, a.m.k. á norðurhveli. Á Íslandi lengjast dagar óðum og styttist í vorið þótt enn sé vetrarlegt í sumum landshlutum.

Í hugum fólks hér á landi er skógrækt helst tengd gróðursetningu trjáa. Umfjöllun um skóga tengist því gjarnan vori og sumri. En skógar gegna sínum hlutverkum árið um kring. Þeir vernda jarðveg og vatn, draga úr svifryki, eru búsvæði fugla og fléttna og skapa skjól, jafnt að vetri sem sumri. Þá eru íslenskir skógar farnir að skapa talsverða atvinnu við grisjun, sem einkum á sér stað að vetrarlagi. Til útivistar eru skógar ekki hvað síst mikilvægir á öðrum árstímum en að sumri. Á haustin eru haustlitir og sveppatínsla. Að vetrarlagi er í skógum skjól fyrir nöprum vindum og oftar gönguskíðafæri en á berangri, svo örfá atriði séu nefnd. Ekki má svo gleyma að útivist í skógi er heilsubætandi fyrir líkama og sál.

Flestir skógar landsins eru opnir almenningi til útivistar. Í þjóðskógana (skóga Skógræktar ríkisins) og skóga skógræktarfélaga er fólk sérstaklega boðið velkomið með merkingum, göngustígum og annarri aðstöðu til útivistar. Þá hafa flestir skógarbændur ekkert á móti því að fólk fái sér göngutúr í skógunum þeirra. Margir eru búnir að uppgötva þetta og njóta reglulega útiveru í skógum, ekki síst að vetrarlagi.

Í tilefni af alþjóðlegum degi skóga á morgun, þann 21. mars, hvetjum við fólk til að skreppa í skógarferð og uppgötva skógana.   

 

Texti: Þröstur Eysteinsson, sviðsstjóri þjóðskógana
Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir