Alþjóðlegur stórviðburður á listasviðinu mun eiga sér stað í Hallormsstaðaskógi næsta sumar þegar átta listamenn opna þar sýninguna Fantasy Island.

Sýningin er stórsýning fjögurra erlendra og fjögurra innlendra samtímalistamanna á Fljótsdalshéraði, en Fantasy Island er hluti af dagskrá Listahátíðar 2004.

Listamennirnir eru Elin Wikström, Jason Rhoades, Björn Roth, Josep van Lieshout, Paul McCarthy, Hannes Lárusson, Katrín Sigurðardóttir og Þorvaldur Þorsteinsson.

Sýningin er samvinnuverkefni Skógræktar ríkisins á Hallormsstað, Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri og Hannesar Lárussonar myndlistarmanns sem jafnframt er sýningarstjóri.

Fantasy Island hefst með sýningu á frumgerðum og skissum á Skriðuklaustri 29. maí, en aðalsýningin verður opnuð í Hallormsstaðaskógi 12. júní.

Á myndinni bregður listamaðurinn Jason Rhoades á leik í Hallormsstaðaskógi s.l. haust. Mynd: Steinunn Ásmundsdóttir.