Ævintýralegur vöxtur á fyrsta sumri án áburðar í sendinni mold. Tuttugu sentimetra stiklingum var pl…
Ævintýralegur vöxtur á fyrsta sumri án áburðar í sendinni mold. Tuttugu sentimetra stiklingum var plantað í vor. Klónninn mun vera Max 1.

Endurnýjanleg auðlind fyrir græna hagkerfið í framtíðinni

Nýlega var haldin í Berlín ráðstefna International Poplar Commission (IPC). Þessi ráðstefna er að jafnaði haldin fjórða hvert ár og hefur verið haldin víða um heiminn á undanförnum áratugum frá árinu 1947. Þema ráðstefnunnar í ár er á ensku: Poplars and Other Fast-Growing Trees, Renewable Resources for Future Green Economics. Þátttakendur í Berlín voru um 260 og víða að úr heiminum. Ísland er ekki aðili að IPC og hefur heldur ekki sent fólk til þátttöku í ráðstefnum IPC svo kunnugt sé. Að þessu sinni gafst okkur tækifæri til þess að senda tvo þátttakendur á þessa merku ráðstefnu þökk sé þátttöku okkar í norræna verkefninu WoodBio (www.woodbio.com). Tveir af starfmönnum Mógilsár, Jóhanna Ólafsdóttir og undirritaður sóttu því ráðstefnuna í Berlín dagana 13.-16. september. Kynntum við þar sögu alaskaaspar á Íslandi og íslenska asparrækt á veggspjaldi. Við vorum heppin með staðsetningu spjaldsins sem var nærri kaffiveitingaaðstöðunni.  Glærur fyrirlestranna á ráðstefnunni er nú hægt að sjá á vefsíðu hennar:  

Jóhanna stendur hér við spjaldið góða.

Í tengslum við ráðstefnuna var boðið upp á fræðsluferðir fyrir og eftir ráðstefnudagana. Undirritaður heimsótti Leibniz-Institut für Agrartechnik und Bioökonomie (ATB) í Potsdam daginn áður en ráðstefnan hófst. Þar starfa 260 menn og konur sem hafa frá mörgu að segja. Þau sýndu meðal annars tilraunir með asparklóna og áburðartilraunir með ösp, víði og fleiri hraðvaxta tegundir. Niðurstöður tilrauna með nitur þóttu mér einkar athyglisverðar. Vegna þess að á þessu svæði er jarðvegur sandborinn og snauður af nitri töldu menn að hægt væri að auka vöxt asparinnar með áburðargjöf. Í ljós kom að áburðurinn gagnaðist einungis illgresi sem varð þá erfiðara viðureignar en ella. Öspin óx aftur á móti ágætlega án nituráburðar. Skýringin á því er líklega samlífi aspar með niturnámsbakteríum. Um það sambýli flutti Sharon L. Doty erindi á ráðstefnunni sem ég segi frá síðar á þessum vettvangi.

Þarna sáum við einnig afkastamikla uppskeru- og kurlunarvél fyrir ösp. Vélin er traktorstengd og ræður við trjástofna sem eru allt að 20 sm í þvermál. Tæknifræðingurinn sem lýsti vélinni og verkun hennar sagðist þó ráðleggja bændum að slá öspina þegar stofnþvermálið væri u.þ.b. 15 sm til þess að nýta afköst vélarinnar til fulls.

Ráðstefnan var haldin í einni af útborgum Berlínar, Adlershof, þar sem fyrrum var
herflugvöllur og ýmsar rannsóknir tengdar hernaði en þar
er nú öflugur vísinda- og tæknigarður.


Texti og myndir: Halldór Sverrisson