Beitarmálin rædd frá ýmsum hliðum í Reykjavík í september

Áætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um sjálfbæra þróun styrkir alþjóðlega ráð­stefnu um búfjárbeit á Norðurlöndunum sem haldin verður í Hörpu í Reykjavík 12.-15. september á vegum norræna genabankans NordGen í samstarfi við Landgræðslu ríkisins. Litið verður á beit í samhengi við sjálfbæra þróun og loftslagsbreytingar auk annars.

Búfjárhald og beit hefur haft umtalsverð áhrif á vistkerfi Norðurlandanna, víða mótað menningarlandslag sem nú er metið til verðmæta sem beri að varðveita en annars staðar valdið varanlegri gróður- og jarðvegseyðingu.

En nú eru breytingatímar. Æ meiri kröfur eru gerðar um sjálfbærni, þar með um sjálfbæra nýtingu beitilands. Þess vegna dugir ekki lengur að hugsa eingöngu um afköst og hversu mikið sé hægt að framleiða hér og nú. Stjórn og stefnumótun í landbúnaðarmálum þarf að mótast af fleiru en því hversu mikið hægt er að framleiða. Þar er nefnd aðlögun og aðgerðir gegn loftslagsbreytingum, verndun vistkerfa, endurhæfing spilltra vistkerfa og viðhald lífkerfa þar sem líffjölbreytni er mikil. Samhliða þessu öllu er rætt um að tryggja þurfi og viðhalda fæðuöryggi.

Allt þetta verður til umræðu á ráðstefnunni í Hörpu í september. Þar koma til leiks sérfræðingar og stjórnmálafólk til að ræða beitarmál á Norðurlöndunum þvert á fræðigreinar og fög. Hugað verður að viðbrögðum við loftslags­breyt­ing­um og aðlögun að þeim, öðrum umhverfismálum, fæðuöryggi, lífsskilyrðum á hverju svæði og hvers kyns vistkerfisþjónustu.

Norræni genabankinn NordGen heldur ráðstefnuna í samvinnu við Landgræðslu ríkisins og nýtur styrks frá Norrænu ráðherranefndinni.

Nánar um ráðstefnuna á vef hennar.

Texti: Pétur Halldórsson


Sauðfé á haustbeit í túni. Beit búpenings hefur mótað mjög landslag á Norðurlöndunum í aldanna rás en sums staðar valdið varanlegri gróður- og jarðvegseyðingu. Mynd: Pétur Halldórsson.