IFFA - International Family Forestry Alliance

Fyrirsagnir eru til að vekja athygli fólks og fá það til að lesa. Fyrirsögn þessa pistils, „Alþjóðasamtök landssambanda skógræktarfjölskyldna“, hefur vonandi fengið einhvern til að lesa. Þú, sem ert komin(n) alla leið hingað í lestrinum veltir e.t.v. fyrir þér hvers konar samtök þetta geti verið. Samkvæmt venjum okkar hér á Íslandi ætti líklega frekar að tala um að þetta séu alþjóðasamtök landssambanda skógareigenda því samsvarandi samtök hérlendis heita Landssamtök skógareigenda. Þetta eru samtök skógarbænda á Íslandi og skógarbændur teljast „þeir sem í atvinnuskyni stunda skógrækt til einhverra nota, s.s. fjölbreytts skógariðnaðar, ferðaþjónustu, útivistar eða landgræðslu“, eins og segir í lögum LSE.

Skógrækt er gjarnan fjölskyldubúgrein vítt og breitt um heiminn eins og annar landbúnaður. Hérlendis er gjarnan talað um bændaskóga þótt það sé ekki opinbert heiti en við gætum allt eins talað um fjölskylduskóga ef við vildum. En nóg um það. Hér er vakin athygli á alþjóðlegum samtökum sem í eru landssambönd skógareigenda um allan heim. Samtökin heita International Family Forestry Alliance, skammstafað IFFA.

Í dag, 16. júlí, kom út fréttabréf IFFA sem birt er á vefsíðu samtakanna. Þar er meðal annars fjallað um nýútkomna skýrslu á vegum FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, þar sem formaður IFFA, Peter deMarsh, er einn meðhöfunda. Skýrslan heitir Making things happen og fjallar um það hvað stjórnvöld í löndum heims geti gert til að efla samtök skógræktenda. Frumdrög voru kynnt og rædd á alþjóðlegri ráðstefnu um samtök skógræktenda sem haldin var í Guilin í Kína í nóvember. Í skýrslunni er hugað að því sem stjórnvöld geta gert til að efla samtök skógræktenda í löndum heims en líka hvernig alþjóðleg samtök og stofnanir eins og FAO og fleiri geta stillt saman strengi til að stuðla að sjálfbærri skógrækt og skógarnytjum á vegum samfélaga og fjölskyldna.

Skýrslan kom út sem hluti af því sem kallað er á ensku Sustainable Forest Management Toolbox og kynnt var á nýafstöðnum fundi, COFO 22, sem skógaráð FAO hélt í Rómarborg. Þar voru kynnt ýmis „verkfæri“ sem komið hefur verið fyrir á gagnvirkum vef til að fólk geti skipst á þekkingu og reynslu um sjálfbæra skógrækt og skógarnytjar og hvernig innleiða má slík vinnubrögð bæði á einstökum stöðum, héruðum eða heilum löndum.

TumastaðirRætt er um COFO 22 fundinn í fréttabréfinu, sagt frá nýju merki IFFA, og líka frá hlýlegum móttökum sem fulltrúar IFFA hlutu á ráðgjafafundi FAO um sjálfbæran skógariðnað, ACSFI, sem haldinn var í Pétursborg í Rússlandi 10.-11. júní. Fundurinn var haldinn í tengslum við árlegan fund ICFPA, sem er alþjóðlegt ráð samtaka í skógar- og pappírsiðnaði. Í ráðinu sitja stjórnendur einkafyrirtækja í skógar- og pappírsiðnaði og fulltrúar samtaka skógareigenda víðs vegar úr heiminum. Megintilgangur þessa ráðs er að veita skógræktarsviði FAO ráðgjöf um aðgerðir og verkefni sem tengjast skógariðnaðinum. FAO veitir á móti stuðning og aðhald svo stefnt sé í átt að sjálfbærri þróun í þessum efnum. Megináherslur ICFPA um þessar mundir snúast um að þróa stjórnsýslu, bæta vottunarkerfi fyrir skóga og skógarafurðir en líka um samstarf við alheimsviðskiptaráðið um sjálfbæra þróun, WBCSD, og alþjóðlega skógvísindaráðið, IUFRO.

Þetta er talsverður frumskógur stofnana og samtaka en vert er að hvetja íslenska skógræktendur og skógareigendur til að kynna sér þessi mál, fylgjast með því sem er í gangi og taka þátt í því sem í boði er. Vísast svipar fleiru saman en hjörtunum í Súdan og Grímsnesinu. Landssamtök skógarbænda eru ekki í IFFA.

Mynd með grein: Hreinn Óskarsson
Texti: Pétur Halldórsson