Bergrún Arna Þorsteinsdóttir aðstoðarskógarvörður með köngul af lindifuru. Ná þarf lindifurukönglunu…
Bergrún Arna Þorsteinsdóttir aðstoðarskógarvörður með köngul af lindifuru. Ná þarf lindifurukönglunum fljótt því mýsnar eru sólgnar í fræið og fljótar að ná því eftir að köngullinn fellur af trénu. Skjámynd úr frétt Sjónvarpsins

Frætínsla getur verið tilvalið fjölskyldusport á haustin, segir Bergrún Arna Þorsteinsdóttir, aðstoðarskógarvörður á Hallormsstað. Rætt var við hana í kvöldfréttum Sjónvarpsins og þar kom fram að Skógræktin safnar nú fræi af stafafuru og borgar kílóverð fyrir.

Rúnar Snær Reynisson, fréttamaður Ríkisútvarpsins á Austurlandi, hitti Bergrúnu Örnu í Hallormsstaðaskógi. Fram kemur í fréttinni að sáning trjáfræja hjálpi gömlum skógum að endurnýja sig og geti stækkað þá. Í haust geti almenningur hjálpað Landgræðslunni að safna birkifræi og Skógræktinni að stafna fræi stafafuru.

Vel þroskað birkifræ. Mikilvægt er að þurrka fræið fljótt eftir að það er tínt og geyma á svölum og þurrum stað. Skjámynd úr frétt SjónvarpsinsSagt er frá því að hjá Skógræktinni á Hallormsstað sé fræjum safnað með skipulögðum hætti á haustin enda séu fræin verðmæt. Auðvelt sé að tína birkifræ og æskilegt að tínt sé af hávöxnum og beinstofna trjám.

„Þú þarft kannski að passa að þú hafir leyfi til að tína á svæðinu en svo er að tína í poka og þurrka. Það er mjög mikilvægt að þurrka fræið strax. Síðan er að geyma það á köldum og rakafríum stað fram á vor. Þá er hægt að fara að sá því út í móa og mela,“ segir Bergrún Arna.

Eins og kunnugt er og fram kemur í fréttinni hafa Landgræðlsan, Olís og Hekluskógar í haust staðið fyrir söfnun á birkifræi sem sáð verður um land allt næsta vor. Enn er hægt að safna fræi víða um land og ástæða til að hvetja alla sem vettlingi geta valdið til þess. Eins og sagt er frá í sjónvarpsfréttinni á birkifræ ekki auðvelt með að spíra í algrónu landi. Bent er á að róta megi með fætinum til að fræið komist í mold og nái að spíra.

Skógræktin er nú í átaki til að safna könglum stafafuru. Greitt er fyrir hvert kíló köngla en árétta skal það sem segir í fréttinni að fólk sem vill safna af stafafuru verður að hafa samband við Skógræktina áður en söfnunin hefst. Þekkja þarf kvæmið og uppruna trjánna sem tínt er af og veitir Skógræktin leiðbeiningar um það.

Þá bendir fréttamaður á að það sé reyndar samkeppni um könglana, sérstaklega lindifurukönglana og þeirra gómsætu hnetur.

Bergrún nær í fræ af fallegu birkitré. Mikilvægt er að velja beinvaxin og falleg birkitré og tína fræ af þeim. Skjámynd úr frétt Sjónvarpsins„Mýsnar eru mjög mikið fyrir lindifuruna því að það er svo stórt fræið, þ.e.a.s. kímið er svo stórt,“ segir Bergrún Arna. „Það líða oft ekki nema svona tveir, þrír dagar frá því að köngullinn dettur af lindifuru og þar til að mýsnar eru búnar með hann og hann er orðinn að engu. Þannig að eftir hvassveður verður maður að drífa sig út í skóg ef maður ætlar að ná lindifurukönglum.“

„Og svo ef músin finnur ekki holuna sína, drepst eða eitthvað þá spírar oft upp lindifuruþyrping, alveg upp undir tuttugu plöntur sem eru á leiðinni upp á sama stað. Þar hefur músin verið búin að gera sér forðabúr.“

Aðstoðarskógarvörðurinn bendir líka á að frætínsla á haustin geti verið tilvalið fjölskyldusport.

„Þið getið tekið svæði í fóstur og sáð, tínt fræ að hausti og síðan er bara að fá leyfi til að fara og sá á hina og þessa staði,“ segir Bergrún Arna að lokum.

Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson