Niðurstöður nýrrar rannsóknar sem fjallað er um í nýútkomnu tölublaði Rits Mógilsár benda til þess að nægjanlegt sé að gróðursetja á bilinu 2.500-3.000 plöntur á hektara í lerkirækt á Héraði. Lítil samkeppni var enn um vaxtarrými 15 árum eftir gróðursetningu, óháð því hversu þétt hafði verið gróðursett.

Greinin í Riti Mógilsár ber titilinn Áhrif þéttleika við gróðursetningu á vöxt og viðgang 15 ára rússalerkis á Fljótsdalshéraði. Höfundar eru Lárus Heiðarsson skógræktarráðgjafi, Bjarki Þór Kjartansson og Arnór Snorrason, sérfræðingar á Mógilsá, rannsóknasviði Skógræktarinnar, og Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands. Þeir rannsökuðu vöxt og viðgang rússalerkis í 15 ára gömlum tilraunareitum. Reitirnir eru á fjórum stöð­um á Fljótsdalshéraði og lerkið var gróðursett með mis­mun­andi upphafs­þéttleika: 1.000, 2.000, 3.500 og 5.000 trjám á hektara.

Rússa­lerki er sú trjá­tegund sem mest er notuð í nytjas­kógrækt á Norður- og Austurlandi og vex vel á rýru og rofnu landi. Niðurstöðurnar sýna að lítil samkeppni var enn um vaxtar­rými 15 árum eftir gróðursetningu, óháð gróður­setningarþéttleika. Mikill munur var á vexti á milli staða sem skýrðist af ólíku skjólfari og jarðvegs­skilyrðum á milli þeirra. Marktækur mun­ur var á afföllum, meðalþvermáli og rúm­máli meðaltrés á milli staða en ekki á milli upphafs­­þéttleika. Bæði afföll og fjöldi auka­stofna minnk­aði almennt með auknum upp­hafsþéttleika.

Einn­ig sýndu niðurstöður að marktækur munur var á yfirhæð á milli staða og upphafsþéttleika. Fram­tíðar vaxtar­spá sem var gerð sýndi að aukinn upphafsþéttleiki (yfir 3.000 plöntur á hektara) skilar fyrst og fremst aukinni viðarframleiðslu í fáeina áratugi (und­ir 35 árum) í upphafi vaxtarlotunnar. Aukinn trjá­fjöldi leiddi til hærri stofnkostnaðar og kostn­aðar vegna snemmgrisjunar en ekki aukn­ingar á nettótekjum.

Niðurstöður höfunda benda til þess að hagkvæmasti upphafsþéttleiki í rækt­un rússalerkis á Fljótsdalshéraði liggi á bilinu 2.500 til 3.000 plöntur á hektara. Til þess að fá nákvæmari niðurstöður væri nauðsynlegt að flétta saman ábata kolefnisbindingar og viðar­nýtingar og meta þannig hámarksarðsemi ræktunarinnar. Einnig væri vert að rannsaka áhrif einingaverðs mismunandi afurða við val á ræktunarforskrift.

Þetta tölublað Rits Mógilsár er 26 síður og greininni fylgja margar töflur og gröf sem styðja við meginmálið með viðbótarupplýsingum. Ritinu má hlaða niður með því að smella á eftirfarandi hlekk.

Frétt: Pétur Halldórsson