Jákvæður tónn

Uppfært 31.10.2016

Skógræktin sendi tíu spurningar um skógræktarmálefni til allra stjórnmálaflokka sem bjóða fram lista í Alþingiskosningunum 29. október 2016. Samkvæmt svörum flokkanna virðast þeir allir vera hlynntir aukinni skógrækt og líta á hana sem vænlega leið til að vinna gegn loftslags­breytingum og til að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins.

Spurningarnar tíu og svör allra flokkanna við þeim

Spurningarnar voru sendar flokkunum 17. október 2016. Notast var við opinber netföng flokkanna sem birt eru á vefsíðum þeirra. Svör bárust ekki frá Dögun, Flokki fólksins, Húmanistaflokknum og Íslensku þjóðfylkingunni. Húmanistaflokkurinn svaraði þó með eftirfarandi orðsendingu:

Húmanistaflokkurinn hefur ekki mótað sér stefnu í málefnum varðandi skógrækt.Við viljum vera heiðarleg svo það er ekki von á svörum frá okkur við þessum spurningum. Við erum alveg tilbúin að hitta ykkur eftir kosningar til að fræðast um málefnið.

Ef marka má þessi svör flokkanna virðist sem öll framboðin sem svöruðu séu heldur jákvæð fyrir skógrækt. Ekki hafa allir flokkarnir sett sér sérstaka stefnu um skógrækt en svo virðist sem málefni eins og skógrækt og endurheimt vot­lendis sé að finna í stefnu eða markmiðum þeirra allra með einhverjum hætti. Athyglisvert er þó hversu lítið loftslags­mál og aðgerðir gegn loftslagsbreytingum hafa verið til umræðu í kosningabaráttunni.


Binding

Enginn flokkanna hefur sett sér stefnu um hversu mikið skuli bundið af koltvísýringi með skógrækt á samningstíma Parísar­samkomulagsins fram til 2030 en allir ræða þeir í svörum sínum um slíka bindingu nema Píratar sem segjast vilja taka upplýstar ákvarðanir. Flokknum hafi ekki verið kynntar nákvæmar útfærslur á bindingu koltvísýrings miðað við þær aðferðir sem í boði séu. Af því má draga þá ályktun að Skógræktin þurfi að fræða Pírata og aðra stjórnmálaflokka betur um þá möguleika sem felast í kolefnisbindingu í skógi á Íslandi. Viðreisn telur æskilegt að sett verði töluleg markmið og vinstri græn hafa sett sér það markmið að Ísland verði kolefnishlutlaust 2050. Björt framtíð vísar til umhverfisstefnu sinnar þar sem fram komi að flokkurinn vilji auka skógrækt/skóggræðslu lands, ekki síst í því skyni að efla virkni vistkerfa.

Framræst land

Flokkarnir virðast ekki hafa hugað sérstaklega að skógrækt sem leið til að draga úr loftslagsáhrifum framræsts lands. Allir lýsa þeir þó vilja sínum til að huga að losun frá framræstu landi. Samfylkingin segist leggja áherslu á endurheimt votlendis og sjálfsagt sé að skoða jafnframt aðrar leiðir eins og skógrækt á framræstu landi. Meðal Pírata er þessa dagana í gangi kosning um ýmis stefnumál, meðal annars klausur í stefnuskjali eins og „stórátak verður gert í að minnka losun sem ekki fellur undir Parísarsamninginn, t.d. fimm ára áætlun um endurheimt votlendis og 10 ára áætlun í skógrækt og uppgræðslu“.


Auðnir

Aðspurðir um skóggræðslu á auðnum virðast flokkarnir ekki hafa sett sér sér­staka stefnu þar um. Framsóknar­flokk­ur­inn vill efla rannsóknir og vísindi um koltvísýringslosun og hvernig losunin dreifist og setja svo markmið út frá því. Píratar svara á svipuðum nótum og raunar má segja það um alla flokkana sem svara. Af því má ráða að íslenskt stjórnmálafólk sé hlynnt efldum rann­sóknum á kolefnis­búskap í náttúru Íslands.

Timbur í mannvirki

Nokkuð mismunandi svör fást þegar flokkarnir eru spurðir um hvort þeir hyggist leggja áherslu á timbur sem byggingarefni í stað stáls og steinsteypu. Björt framtíð kveðst mjög hlynnt allri nýsköpun og innleiðingu ferla sem falli innan framtíðarsýnar þeirra á grænt lágkolefnis­hagkerfi. Framsóknarflokkurinn fagnar því að hús Ásatrúarfélagsins í Reykjavík skuli verða úr íslenskum viði en Píratar vísa í sjálfsákvörðunarrétt fólks og vilja því ekki segja fólki úr hvaða efni skuli byggja hús. Afstaða Viðreisnar ræðst af hagkvæmnissjónarmiðum og samkeppnishæfni en enginn flokkurinn leggur áherslu á timbur sem byggingar­efni beinlínis til að draga úr loftslagsáhrifum byggingariðnaðarins nema þá helst Alþýðufylkingin og Vinstrihreyfingin grænt framboð. Frekari fræðslu og umræðu virðist því vera þörf um þann mikla samdrátt losunar gróðurhúsa­lofttegunda sem felst í því að nota timbur í stað steinsteypu og stáls.


Samfélag

Allir vilja flokkarnir nýta þá fjölbreytilegu vistkerfisþjónustu sem skógarnir veita til að efla íslenskt samfélag og náttúru. Björt framtíð vill að mikilvægi virkra vistkerfa verði sýnilegra í ákvörðunum og nefnir sérstaklega skjólmyndun við hringveginn. Framsóknar­flokkurinn nefnir búskapar­skógrækt til að bæta búsetu­skilyrði, Píratar að skógur sé tvímælalaust hluti af ríkri fjölbreytni íslenskrar náttúru, Samfylkingin að aukin nýting vistkerfis­þjónstu rími vel við stefnuna um Græna hagkerfið, Viðreisn að útivistarsvæði hafi heilsubætandi áhrif og forvarnargildi og VG að nýting vistkerfisþjónustu skóga rími beint við stefnu þeirra um að styðja við líffræðilega fjölbreytni og minnkun vist­spors. Skilaboð skógræktarfólks um fjölþætt áhrif skóga til eflingar náttúru og mannlífs virðast því hafa komist til skila.


Dreifbýli

Allir virðast flokkarnir sjá tækifæri í því að skógrækt geti eflt byggðir landsins en Píratar vísa þar aftur í sjálfsákvörðunarrétt og því verði ákvörðunum um þessi efni beint til byggðanna sjálfra. Viðreisn telur æskilegt að skógrækt sé meðal þess sem tekið sé inn í myndina við gerð búvöru­samninga. Sérstökum verkefnum í skóg­rækt eða lífrænum landbúnaði megi mögulega beina á staði sem eiga undir högg að sækja, t.d. vegna ofbeitar. VG telur að nytjaskógrækt styrki enn frekar nýsköpun í dreifðum byggðum.

Lög

Flestir segja flokkarnir löngu tímabært að setja landinu ný skógræktarlög en Píratar segjast þó ekki hafa sett það í forgang. Séu góð lög tilbúin muni þeir þó ekki koma í veg fyrir samþykkt þeirra. Samfylkingin segir eðlilegt í framhaldi af sameiningu skógræktarstofnana að endurskoða lögin en Viðreisn telur mikilvægara að vanda til verka en hraða málum.


Skógræktarstefna Íslands

Sömuleiðis telja flestir flokkarnir rétt að beita sér fyrir setningu skógræktarstefnu. Björt framtíð vill tvinna það starf við heildarstefnumótun landnýtingar neðan 400 m.y.s. en rétt eins og með ný skógræktarlög er skógræktarstefna ekki forgangsmál á næsta kjörtímabili hjá Pírötum. VG segir eðlilegt að horfa til stefnumótunar Skógræktarinnar eins og hún birtist í ritinu Skógar á Íslandi, stefna á 21. öld.

Ríkisjarðir

Loks voru flokkarnir spurðir hvort þeir vildu beita sér fyrir því að jarðir í eigu ríkisins yrðu teknar til skógræktar. Alþýðufylkingin styður það en ella séu jarðir í eyði teknar til landbúnaðar á ný. Björt framtíð vill tengja þetta stefnu­mótun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, fjölbreytta vistkerfisþjónustu og lífbreyti­leika. Framsóknar­flokkurinn vill að allar álitlegar bújarðir verði nýttar til búskapar sem skógrækt geti farið vel saman með. Píratar álíta að nýting ríkisjarða til skógræktar geti verið góð lausn á skógræktarhluta stefnu þeirra um loftslags­mál. Samfylkingin telur að ríkisjarðir megi nýta þar sem það eigi við en Viðreisn hallast frekar að því að selja jarðir og fela öðrum að sinna þar skógrækt. VG vill leggja sitt af mörkum til að auka kolefnisbindingu og því sé tilvalið að nýta þær jarðir sem henta til skógræktar.

Sjá má tíu spurningar Skógræktarinnar um skógrækt og svör stjórnmálaflokkanna við þeim í þessu skjali:

Stefnumið Skógræktarinnar fyrir 21. öldina:

Texti og myndir: Pétur Halldórsson