(mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir)
(mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir)

Fram kemur á vef umhverfisráðuneytisins að Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, hefur ákveðið að hrinda í framkvæmd aðgerðum til að auka útbreiðslu birkiskóga hér á landi. Fyrir þremur árum kom út á vegum umhverfisráðuneytisins skýrsla um birkiskóga, svokölluð Birkiskógaskýrsla. Í henni voru settar fram stefnumótandi tillögur að vernd og endurheimt birkiskóga, sem umhverfisráðherra hefur nú ákveðið að skuli unnar frekar og komið í framkvæmd eins og kostur er.

Með verkefninu er stefnt að því að friða land fyrir beit í nágrenni birkiskóga, sér í lagi þar sem skógurinn getur breiðst út án verulegra annarra aðgerða en beitarfriðunar. Einnig getur í einhverjum tilvikum verið þörf á frekari aðgerðum, svo sem fræsáningu eða gróðursetningu. Slík skógrækt getur verið framkvæmd á landi í umsjón stofnana umhverfisráðuneytisins og mun verða unnin greining á möguleikum þess. Einnig verður lögð áhersla á samstarf við landeigendur um friðun lands frá beit í nágrenni birkiskóga/skógarleifa þar sem skógurinn geti fengið að breiðast út. Þetta eru eðlilega langtímaaðgerðir, þar sem miðað er við að tekin séu fyrir stór samfelld svæði.  

Skógrækt ríkisins er falin umsjón með verkefninu  í nánu samstarfi við Landgræðslu ríkisins. Munu stofnanirnar vinna tillögur að svæðum og aðgerðum við mögulega endurheimt og ræktun birkiskóga og hafa samstarf og samráð við aðra aðila eftir því sem við á í hverju tilviki. Í þessu verkefni má til að mynda líta til verkefnisins Hekluskóga og árangurs þess.

Aðgerðir til að auka útbreiðslu birkiskóga fellur vel að áherslum umhverfsráðuneytisins í mörgum málaflokkum, ekki síst skógræktar-, náttúruverndar- og loftslagsmálum.

Talið er að um 97% þeirra birkiskóglenda sem hér voru við landnám hafi eyðst af mannavöldum.


Frétt: Umhverfisráðuneytið
Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir