Gæti sparað skógarbændum aðkeypta vinnu

Ódýr og meðfærileg afkvistunarvél er reynd þessa dagana við grisjun í skógum á Suður­landi. Slík vél, sem tengd er við dráttarvél, er sögð geta sparað skógar­bændum aðkeypta vinnu. Rætt er um að stofna rekstrarfélag um slíka vél til að hægt sé að þjóna bændum.

Morgunblaðið fjallar um málið í dag og þar er m.a. rætt við Sigurð Jónsson, skógar­bónda í Ásgerði í Hrunamannahreppi, og Böðvar Guðmundsson, framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Árnesinga, sem einnig er skógræktarráðgjafi hjá Skógræktinni. Helgi Bjarnason blaðamaður ræðir við þá og sömu­leiðis Finn­boga Magnús­son, framkvæmda­stjóra Jötuns, sem flytur vélina inn.

Umfjöllun blaðsins er á þessa leið:

„Þessi tækni er hugsuð fyrir skógarbóndann, að hann geti unnið sem mest sjálfur við grisjun og sparað sér aðkeypta vinnu,“ segir Sigurður Jónsson, skógarbóndi í Ásgerði í Hrunamannahreppi. Hann ræðir um ódýra og meðfærilega afkvistunarvél sem í fyrradag var prófuð á hans landi. Vélin léttir mjög vinnu við grisjun í skógum og trjáreitum og eykur afköst.

Komið er að grisjun  skóga í bændaskógrækt um allt land og skógræktarfélög og Skógræktin þurfa stöðugt að vinna að grisjun. Er þetta mikið unnið með höndunum sem tekur tíma og er erfitt. Verktaki á Austurlandi á stóra skógarhöggsvél sem heggur tré, hreinsar greinarnar af og bútar tréð að því búnu niður. Vélin er dýr og verðleggja þarf þjónustu hennar eftir því. Þá er dýrt að flytja tækið á milli landshuta.

Böðvar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Skórgræktarfélags Árnesinga, bætir því við að slík vél sé of stór í fyrstu grisjun en nýtist betur í 2. og 3. grisjun.

Grisja þarf þúsundir hektara

Skógarbændur á Suðurlandihafa verið að leita að hentugu tæki til að létta sér störfin. Þeir fengu kynningu á tiltölulega ódýrum og meðfærilegum afkvistunarvélum sem settar eru á  dráttarvélar þegar þeir skoðuðu stóra sýningu skógariðnaðarins í Svíþjóð í sumar. Þeir sömdu við Hypro um að senda vél sem þeir töldu geta hentað hér, til landsins í reynslu- og kynningarskyni. Starfsmenn framleiðandans eru þessa dagana að þjálfa starfsmenn til að taka við henni.

Vélasalinn Jötunn tók að sér að flytja vélina til landsins og tók um leið að sér umboð fyrir framleiðandann. Rætt er um að stofna rekstrarfélag um vélina til að hægt sé að þjóna bændum. Finnbogi Magnússon, framkvæmdastjóri Jötuns, segir að vélin hreinsi greinarnar af trjánum og búti þau niður. Fara þurfi með aðra vél sem einnig er tengd við dráttarvél á undan til að fella trén og hreinsa neðstu greinarnar af – eða nota keðjusög.

Finnbogi tekur fram að hann hafi útvegað skógarbændum ýmis tæki í gegnum tíðina. Hann segist þó ekki eiga von á að selja margar skógarhöggs- og afkvistunarvélar fyrst í stað en trén vaxi og smám saman verði hér raunverulegur skógariðnaður. Þá stækki markaðurinn.

Böðvar og Finnbogi benda á að skógarbændur eigi mikla skóga og þörf sé á að grisja þúsundir hektara af skógi til þess að hjálpa þeim trjám sem eftir standa til að vaxa. Finnbogi bendir á að bændur geti fengið verk­taka í þetta verk enda fái þeir stuðning ríkisins við fyrstu grisjun. Með því að hafa aðgang að tækjum sem þeir geti tengt við eigin dráttarvélar geti þeir skapað sjálfum sér eða fjölskyldunni verkefni og tekjur yfir vetrartímann.

Böðvar segir að vélvæðing skógarhöggsinsspari mikla vinnu og erfiði. Nefna þeir félagar að hægt sé að nota krana nýja kvistarans og spil til að sækja tré allt að 50 metra inn í trjáreiti.

Vélin er í þessari umferð meðal annars prófuð við grisjun aspa í skógum Sigurðar í Ásgerði, fækkun aspa í trjágöngunum sem liggja frá Laxá að Flúðum og grisjun í þéttum skógi Skógræktarfélags Árnesinga á Snæfoksstöðum. Sigurður Jónsson fylgdist með og leist nokkuð vel á.

Þarf að fá meira fyrir viðinn

Stór hluti grisjunarviðarins er fluttur á Grundartanga þar sem hann er kurlaður og notaður við framleiðsluna í járnblendiverksmiðju Elkem. Sigurður segir dýrt að flytja trén á Grundartanga og kurla viðinn og slæmt að ekki sé hægt að greiða bændum grunnkostnað við framleiðsluna. Segir hann að meginhluti kurlsins sem notað er í járnblendiverksmiðjunni sé fluttur frá Kína og Kanada. Viðurinn er brenndur hér með tilheyrandi útblæstri. Skógræktarmenn benda á að planta þurfi miklum fjölda trjáa hér á landi til að vega á móti útblæstri gróðurhúsalofttegunda og draga úr kolefnisskuldinni sem safnast upp, meðal annars vegna brennslu á þessum viði frá Kína og Kanada. Nær væri að stuðla að notkun á íslenskum trjám við stóriðjuna og koma þannig á hringrás.

Þá kemur einnig fram í blaðinu að nú sér verið að fella aðra hverja ösp í umdeildri trjáröð við Skeiða- og Hrunamanna­veg frá brúnni yfir Stóru-Laxá og að Flúðum. Skógræktarfélag Hrunamannahrepps hefur samþykkt
að ráðast í þetta verk og Sigríður Jónsdóttir formaður segir í samtali við blaðið að markmiðið sé að opna betur fyrir útsýni frá þjóðveginum.

Skógræktarfélagið og áhugamenn plöntuðu stórum alaskaöspum með fram þjóðveginum þegar nýr vegur var lagður þar fyrir þrjátíu árum. Þótt aðeins væri plantað öðrum megin vegarins og ekki alveg samfellt sáu menn fyrir sér umhverfi eins og í Mið-Evrópu þar sem víða má finna falleg trjágöng. Ekki voru allir hrifnir af þessari hugmynd og er ákvörðunin nú um að grisja meðal annars gert til að koma til móts við sjónarmið þeirra. Aspirnar hafa stækkað mjög og líta öðruvísi út í dag en þegar þeim var plantað. „Það eru einhverjir óhressir með að ekki sjáist til fjalla þegar ekið er upp Hrepp,“ segir Sigurður í Ásgerði. Um 800 aspir eru meðfram veginum og þarf því að fjarlægja 400 tré. Sigurður hóf verkið á síðasta ári með því að fella aspir úr röðinni við Flúðir. Sigríður segir að það hafi komi vel út og þess vegna hafi verið ákveðið að halda áfram. Nýju tækin sem sunnlenskir skógarbændur hafa fengið að láni Svíþjóð nýtast vel við verkið.


.