Flutt erindi um göngubrú á Markarfljót

Aðalfundur Vina Þórsmerkur verður haldinn mánudagskvöldið 5. maí kl. 20 í Pálsstofu í félagsheimilinu Hvoli á Hvolsvelli. Auk venjulegra aðalfundarstarfa flytur Guðmundur V. Guðmundsson, verkfræðingur hjá Vegagerðinni, erindi um göngubrú á Markarfljót.

Þórsmörk og Goðaland eru með fallegustu stöðum á landinu og þó víðar væri leitað. Þar er að finna fjölbreytt og stórbrotið landslag sem klætt er birkiskógum, straumhörðum ám, jöklum, eldfjöllum og nýrunnu hrauni. Fjölmargir gestir heimsækja þetta svæði bæði gangandi og akandi og er talið að milli 70 og 100 þúsund manns heimsæki svæðið árlega.

Vinir Þórsmerkur eru samtök einstaklinga, fyrir­tækja, félagasamtaka og stofnana. Samtökin voru stofnuð árið 2010.

Meginmarkmið Vina Þórsmerkur er að standa vörð um náttúru Þórsmerkur, Goðalands og nálægra afrétta, og bæta aðgengi almennings að svæðinu og ferðamannaaðstöðu án þess að ganga á náttúru svæðisins. Í þessu felst meðal annars að halda við þeim fjölmörgu gönguleiðum og göngubrúm sem er að finna á svæðinu og bæta merkingar á leiðunum. Stjórn félagsins var skipuð í haust og verður almenningi fljótlega boðið að skrá sig í félagið.

Aðgengi að Þórsmerkursvæðinu er fremur erfitt vegna þess að þangað liggur aðeins grófur malarvegur og þarf að fara yfir nokkrar óbrúaðar ár á leiðinni. Telja margir þetta vera hluta af upplifuninni við að fara í Mörkina.

Þessar ár geta þó vaxið mjög hratt í vatnsveðrum sem og af sólbráð á heitum dögum og leiðin lokast. Þær eru því stórvarasamar og hafa orðið þar alvarleg slys, þar á meðal banaslys. Í nýliðnu eldgosi í Eyjafjallajökli lokaðist leiðin inn í Þórsmörk vegna hlaupsins úr Gígjökli og urðu ferðalangar innlyksa á Merkursvæðinu.

Eitt af fyrstu verkefnum Vina Þórsmerkur nú á haustdögum var að sækja um fjárveitingu til Alþingis til að smíða nýja göngubrú yfir Markarfljót. Ef slík brú yrði reist væri hægt að komast inn í Þórsmörk úr Fljótshlíð.

Göngubrú á Markarfljót á móts við Húsadal myndi auka á öryggi ferðamanna í Þórsmörk og gera fólki kleift að komast heim þegar ár eru ófærar. Brú á þessum stað myndi opna nýja vídd í ferðaþjónustu á svæðinu með tengingu Þórsmerkur við Tindfjöll og Einhyrningssvæðið.