Portúgölsku sjálfboðaliðarnir ásamt Jóni Auðuni Bogasyni skógarverði og fulltrúum SEEDS-samtakanna. …
Portúgölsku sjálfboðaliðarnir ásamt Jóni Auðuni Bogasyni skógarverði og fulltrúum SEEDS-samtakanna. Ljósmynd: João Simões/Helder Berenguer

Fimm sjálfboðaliðar frá portúgölsku æskulýðssamtökunum Agora Aveiro unnu að skógræktarverkefnum hér á landi dagana 20. til 30. apríl í samstarfi við sjálfboðasamtökin SEEDS, Skógræktina og með stuðningi evrópsku áætlunarinnar Erasmus+.

Þetta var annað verkefnið af fimm sem þau ætla að inna af hendi gegnum alþjóðlegt átak sem kallast F.O.R.E.S.T. og Íslandsdeild SEEDS-samtakanna skipuleggja í samvinnu við Agora Aveiro. Skammstöfunin stendur fyrir „Foster Environmental Strategies for Change“ og átakið snýst um að efla alþjóðlega samvinnu í verkefnum og herferðum á sviði umhverfislegrar sjálfbærni, með það að markmiði að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga á sveitarfélög og svæðisbundin samfélög. Hugmyndin er að þetta sé vettvangur til að miðla hugmyndum, aðferðum og reynslu milli félaga sem tala fyrir umhverfismálum og sjálfbærni og sinna ýmsum umhverfisverkefnum svo sem skógrækt, gróðurvernd og hreinsun umhverfisins.

Þau Helder Berenguer, Liane Carvalho, Nuno Afonso, Nuno Brízida og João Simões gistu í Skógarkoti, húsi Skógræktarinnar í Norðtunguskógi, meðan þau dvöldu á Íslandi og unnu þar að verkefnum í samvinnu við Jón Auðun Bogason, skógarvörð á Vesturlandi. Meðal annars unnu þau að því að draga grisjunarefni út úr skóginum sem kurlað var og borið á stíga. Sömuleiðis unnu þau við að klippa asparstiklinga úr efni sem tekið hafði verið í Skorradal og verður efniviður sá notaður til fjölgunar á alaskaösp. Þau ferðuðust líka svolítið um Vesturland, skoðuðu Snæfellsnes og voru alsæl í lokin að hafa fengið að líta norðurljósin augum.

Framhald samstarfsins felst meðal annars í því að fulltrúar frá SEEDS á Íslandi heimsækja þessi samstarfssamtök sín í Portúgal, æskulýðssamtökin Agora Aveiro. Þar munu gestirnir kynnast skipulagningu og framkvæmd sjálfboðastarfs á svæðinu ásamt því að fræðast um aðferðir heimamanna til að virkja nærsamfélagið betur í þróun og framkvæmd verkefna.

Nánari upplýsingar og fleiri myndir frá Íslandsdvöl hópsins:

Texti: Pétur Halldórsson