Á Fagráðstefnu skógræktar sem haldin var á Hallormsstað 13.-14.mars voru birtar niðurstöður úr nýrri rannsókn á atvinnuuppbyggingu í skógrækt á Íslandi. Alls hafa orðið til 81,4 ársverk á árabilinu 2001-2010 fyrir tilstuðlan landshlutaverkefnanna í skógrækt (LHV) um allt land. Ársverkunum fjölgaði úr 63 árið 2001 upp í um 100 árið 2007 en hefur fækkað síðan aftur niður í 47 ársverk árið 2012. Ljóst er að vinna við skógrækt hefur mikla þýðingu fyrir atvinnulíf á landsbyggðinni og að mikið verk er framundan við skógrækt á Íslandi ef uppfylla á þá samninga sem gerðir hafa verið við bændur. Til þess þarf aukið fjármagn til skógræktar þar sem brýn þörf er orðin á grisjun skóga auk áframhaldandi gróðursetningu í samræmi við gerða samninga.

Alls má gera ráð fyrir að atvinnuuppbygging á vegum LHV í samstarfi við skógarbændur um allt land hafi að auki skilað sem svarar 90 – 140  afleiddum ársverkum á landsbyggðinni að jafnaði frá árinu 2001. Til samanburðar má nefna að í umræðu um kísilmálmverksmiðju á Suðurnesjum á árinu 2012 var talað um að þar myndu verða til sem samsvaraði 90 ársverkum.

Framundan er mikil vinna við skógrækt á næstu árum þar sem sá skógur sem gróðursettur hefur verið á síðustu 10 – 15 árum er óðum að vaxa upp í grisjunarstærð. Ef skógurinn er ekki grisjaður á réttum tíma dregur úr vexti trjánna og þannig munu miklir fjármunir tapast til framtíðar.

Öll þessi ársverk í skógrækt eru unnin á landsbyggðinni og eru dreifð um allt land. Víða er fábrotið atvinnulíf á þeim svæðum þar sem skógurinn er ræktaður og því er þessi atvinna kærkomin viðbót við atvinnulífið á landsbyggðinni. Mjög aðkallandi er að fjármagn verði áfram lagt í þessa grein meðan á uppbyggingu hennar stendur og að aukið verði aukið verulega við það fjármagn sem nú er til ráðstöfunar. Skógrækt á Íslandi á alla möguleika á að verða umsvifamikil og sjálfbær atvinnugrein í framtíðinni sem mun spara þjóðarbúinu mikinn gjaldeyri og skapa mikla atvinnu víða um land. Þá eru ótalin þau jákvæðu áhrif sem skógrækt hefur á loftslag með kolefnisbindingu. Það er því til mikils að vinna með fjármögnun í nútíðinni til að framtíðin beri í skauti sér öfluga atvinnu við íslenska skóga að ógleymdum þeim afurðum sem skógarnir gefa af sér.

 

Texti: Lilja Magnúsdóttir, skógfræðingur og meistaranemi í skógfræði við LbhÍ
Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir