Stutt samantekt erindanna sem flutt voru í Borgarnesi

Fagráðstefna skógræktar 2015 var haldin í Borgarnesi dagana 11.-12. mars. Að þessu sinni var ráðstefnan haldin í samvinnu við NordGen Forest, skógarsvið norrænu erfðavísindastofnunarinnar, og var fyrri dagur hennar helgaður trjákynbótum að verulegu leyti með yfirskriftinni „Aukin framleiðni skóga á jaðarsvæðum með trjákynbótum“. Seinni daginn voru flutt fjölbreytt erindi um hinar ýmsu hliðar skógræktar. Mörg tengdust þau fjölbreytilegum nytjum skóga og nýsköpun í þeim efnum.

Ráðstefnuna setti Björn H. Barkarson, sérfræðingur í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, og bar hann fundargestum kveðju Sigrúnar Magnúsdóttur umhverfisráðherra. Í ávarpi sínu kom Björn meðal annars inn á mikilvægi erlends samstarfs í skógræktarmálum, sérstaklega við hinar Norðurlandaþjóðirnar. Skógar skipuðu æ stærri sess í íslensku samfélagi, þeir væru meðal vinsælustu útivistarsvæða landsins, væru farnir að gefa af sér fjölbreyttar afurðir og skiptu verulegu máli um bindingu kolefnis. Framlög til gróðursetningar hefðu þó dregist saman undanfarin ár, en leitað væri leiða til að auka á ný almennan stuðning til nýræktar skóga.

Næstur á mælendaskrá var Aðalsteinn Sigurgeirsson, forstöðumaður Rannsóknastöðvar skógræktar, Mógilsá, og fór hann stuttlega yfir sögu trjákynbóta og ræktunar skóga hérlendis. Skógrækt hér hefði lengi vel verið stunduð með happa- og glappaaðferð – ýmsar tegundir prófaðar, en kannski ekki alltaf byggt á bestu vísindum eða nægilega miklum og góðum ræktunartilraunum. Alls hefðu um 2.000 tegundir verið prófaðar hérlendis, en aðeins lítill hluti þeirra reynst vel. Tilraunir hefðu framan af aðallega snúist um val á tegundum og kvæmum, en væru nú farnar að færast meira yfir í kynbætur á þekktum efniviði.

Á eftir Aðalsteini kom Þröstur Eysteinsson, sviðsstjóri þjóðskóga hjá Skógrækt ríkisins, upp í pontu og fór yfir aðlögun og framleiðni helstu trjátegunda í íslenskri skógrækt. Í erindi sínu fór Þröstur yfir helstu þætti sem hefðu áhrif á aðlögun trjátegunda hérlendis – loftslag, hnattstöðu og frjósemi jarðvegs – og hvað skipti þar mestu máli. Einnig fór hann stuttlega yfir kosti og galla algengustu trjátegunda sem notaðar væru í skógrækt hérlendis, sérstaklega hvað varðar aðlögun þeirra.

Næstur tók til máls Anssi Ahtikoski, frá náttúruauðlindastofnun Finnlands (Natural Resources Institute). Í erindi sínu varpaði hann fram þeirri spurningu hvort fjárhagslegur hvati væri fyrir skógræktendur að nýta kynbættan efnivið. Fór hann stuttlega yfir rök fyrir kynbótum og hvernig leggja ætti mat á mögulega kosti þeirra. Tók hann dæmi frá Finnlandi, þar sem líkön hafa verið notuð til að spá fyrir um vöxt tegunda við mismunandi aðstæður og hagkvæmni ræktunar reiknuð, þar á meðal fyrir notkun mismunandi efniviðar – staðarefniviðar og kynbætts efniviðar úr frægörðum. Almennt var svarið við spurningunni jákvætt; notkun kynbætts efniviðar leiddi til meiri framleiðni og arðsemi og hægt var að sýna fram á að skógareigendur græða á því að nota kynbætt efni.

Eftir kaffihlé var komið að fyrirlestri Mats Berlins, frá Skogforsk í Svíþjóð, um mat á dreifingarsvæði fyrir skógarfuru og rauðgreni. Hver frægarður í Finnlandi og Svíþjóð hefur ákveðið dreifingarsvæði, þar sem nota má fræ frá viðkomandi garði. Verkefnið nær yfir bæði Finnland og Svíþjóð. Tengd eru saman nákvæm loftslagslíkön og upplýsingar um líffræðilegar kröfur tegundanna tveggja í þessum löndum til að búa til líkan sem metur vöxt og lifun þeirra á mismunandi stöðum. Líkanið má einnig nota til að prófa sviðsmyndir mismunandi loftslagsbreytinga, til að meta áhrif þeirra á þessar tvær tegundir. Þetta getur til dæmis nýst til að skipuleggja skógræktarsvæði og velja efnivið með tilliti til yfirvofandi veðurbreytinga.


Auður Ingólfsdóttir, lektor hjá Háskólanum á Bifröst, fjallaði því næst um samspil manns og náttúru, skoðað út frá kenningum femínisma. Velti hún upp ýmsum spurningum um kynbundna orðræðu um náttúru og skóga og mismunandi afstöðu kynjanna til skógræktar. Meðal annars ræddi hún um muninn á karllægri og kvenlægri umræðu. Sú karllæga snerist meira um stundarhagsmuni og skammtímasjónarmið en sú kvenlæga liti lengra fram í tímann með langtímasjónarmið og -hagsmuni að leiðarljósi.

Að loknum hádegisverði steig Þröstur Eysteinsson aftur upp í pontu og gaf yfirlit um kynbætur á lerki á Íslandi. Þær hafa nú staðið í um 20 ár og er lerkiyrkið Hrymur meginafurð þeirra, blendingur rússalerkis og evrópulerkis sem ræktaður er með stýrðri víxlfrjófgun tegundanna í fræhöll á Vöglum í Fnjóskadal. Hrymur hefur reynst vel víða um land og er nú um fimmtungur þess lerkis sem gróðursett er á landinu. Horfa á fyrirlestur.



Bo Karlsson frá Skogforsk í Svíþjóð fjallaði því næst um spurninguna: Af hverju frægarðar? Í grunninn er svarið við því að notkun betri efniviðar úr frægörðum getur aukið framleiðni, sem skiptir meðal annars máli þar sem mikil eftirspurn er eftir timbri. Norræn skógrækt er í samkeppni við aðra framleiðendur, fjárfesting í skógrækt er til langs tíma og því skynsamlegt að nota gjöfulasta og besta efniviðinn. Mikil framleiðni á einum stað getur auk þess gert kleift að taka frá land annars staðar, t.d. til náttúruverndar. Að auki getur notkun á réttum efniviði ekki einungis aukið magn, heldur líka gæði timburs.

Næst sagði Anders Ræbild, Háskólanum í Kaupmannahöfn, frá skógrækt á Grænlandi, en landið er afar trjásnautt. Fór hann stuttlega yfir skógarsögu Grænlands, tilraunir með trjátegundir þar og mælingar á þeim trjágróðri sem þar finnst. Einnig sagði hann frá líkani sem gert hefur verið er sýnir mögulega útbreiðslu trjátegunda á Grænlandi, en samkvæmt því ættu tré að geta vaxið þar víðar en nú er. Einnig hafa verið gerð líkön af stöðum með svipað loftslag til að finna staði með trjátegundir sem mögulega geta þrifist á Grænlandi. Reyndist Ísland ekki vera heppilegt upprunaland til að sækja efnivið sem hentaði aðstæðum á Grænlandi.


Árni Bragason, forstjóri NordGen, hélt því næst stutta kynningu á NordGen og meðal annars kom fram hjá honum að nú í lok febrúarmánaðar hefði fyrstu trjáfræjunum verið komið fyrir til geymslu á erfðaefni þeirra í fræhvelfingunni miklu á Svalbarða. Þetta voru fræ af rauðgreni og skógarfuru sem eru mikilvægustu tegundirnar í skógrækt í Skandinavíu.

Þar næst var aftur komið að trjákynbótum og að þessu sinni sagði Halldór Sverrisson, sérfræðingur á Rannsóknastöð Skógræktar, Mógilsá, frá kynbótum aspar, sem miða að því að finna asparklóna með gott þol gegn asparryði. Þessi sveppasjúkdómur kom fyrst upp hérlendis rétt fyrir síðustu aldamót. Hófust kynbætur árið 2002 og er nú búið að finna um 40 klóna sem hafa þol gagnvart ryðinu. Er verkefnið nú að finna bestu klónana meðal þeirra og nota þá á þeim svæðum þar sem ryðið er mest til vandræða.

Þorsteinn Tómasson jurtaerfðafræðingur fjallaði næst um kynbætur á birki sem hann sagði að mörgu leyti áhugaverða tegund til kynbóta. Þetta væri eina ríkjandi innlenda tegundin, hún væri vel aðlöguð að aðstæðum hér, hefði mikla fjölbreytni í formi, Kynslóðir hennar væru tiltölulega stuttar og birkið væri mjög vinsælt á Íslandi, bæði sem skógar- og garðtré. Sagði Þorsteinn frá kynbótastarfi sem unnið var á vegum Gróðurbótafélagsins svokallaða, en afurð þess starfs var yrkið Embla, sem reynst hefur vel.


Erindum dagsins lauk með stuttri kynningu Friðriks Aspelunds á fólkvanginum í Einkunnum, en þangað var ferðinni síðan heitið í skoðunarferð.

Nýsköpun áberandi seinni dag ráðstefnunnar

Bergsveinn Þórsson, skógfræðingur hjá Norðurlandsskógum, var fyrstur í pontu síðari dag Fagráðstefnunnar í Borgarnesi. Hann ræddi í erindi sínu um áhrif mismunandi jarðvinnslu á lifun og vöxt skógarplantna í frjósömu landi og sagði frá tilraun sem gerð var að Saurbæ í Vatnsdal með birki, alaskaösp og sitkabastarð.

Bergsveinn spurði: Er hægt að gróðursetja bakkaplöntur í frjósamt grasgefið land með góðum árangri? Fram kom að mismunandi aðferðir við að bæta lifun í mjög grasgefnu landi hefðu lítið verið rannsakaðar hérlendis. Markmið tilraunarinnar var að sjá hvort auka mætti lifun við þessar aðstæður með jarðvinnslu (TTS-herfingu), bælingu eða eitrun miðað við að gera ekkert. Niðurstaðan var að bæði TTS-herfing og eitrun yki vöxtinn hjá birki og alaskaösp en sitkabastarðurinn átti erfitt uppdráttar í tilrauninni, hvort sem nokkuð var gert eða ekkert.


Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi, ræddi því næst um hlutverk skóganna í ferðamennsku. Það væri ekki hlutverk Skógræktar ríkisins að sinna ferðamönnum en allir væru þó velkomnir í skógana og því þyrfti að huga að aðstöðu gestanna. Áætlaður fjöldi gesta í helstu þjóðskógunum væri um hálf milljón á ári sem þó væri örugglega vanáætlað. Ferðaþjónustan nýtir skógana sem áningarstaði og Hreinn benti á að uppbygging í skógum gæti létt álagi af öðrum ferðamannastöðum. Hann ræddi um öryggismálin og lagði til að komið yrði upp landskerfi fyrir merktar gönguleiðir með samræmdu númerakerfi. Stikur með númerum myndu nýtast til að leiðbeina björgunarfólki þegar eitthvað kæmi upp á og flýta fyrir því að hjálp bærist. Í skógunum myndi slíkt kerfi líka einfalda vinnu og verkstjórn, segir hann. Þá talaði Hreinn um að tækifærin væru mörg til uppbyggingar í skógunum en til þess þyrfti fjármagn. Vonir væru bundnar við einhvers konar ferðamannaskatt, hvort sem það væri af náttúrupassa eða í einhverri annarri mynd.

Katrín Ásgrímsdóttir, framkvæmdastjóri Skjólskóga fjallaði um áskoranir í uppeldi skógarplantna frá sjónarhóli plöntuframleiðenda og hvert stefna skyldi í þeim efnum. Undanfarin ár hefði framleiðendum fækkað og jafnvel væru horfur á enn frekari fækkun. Katrínu finnst vanta yfirsýn, til dæmis um plöntustaðlana og fræmálin, að hlutir verði samræmdir hjá ræktendum vítt og breitt, til dæmis plöntustærðir, svo einfaldara verði fyrir framleiðendur að fóta sig í greininni. Sömuleiðis verði að einfalda útboðin svo þau verði auðveldari í framkvæmd. Katrín telur vanta rannsóknir og ráðgjöf sem nýtist stöðvunum. Nauðsynlegt sé að nýta betur krafta þeirra sér­fræðinga sem til taks séu á þessum litla markaði. Hjá hinu opinbera þurfi að vera starfsmaður sem hafi yfirsýn um fræmálin og hvar fræ sé til taks á hverjum tíma. Hún mælir með meira samtali, meiri samhæfingu og samvinnu kaupenda, jafnvel sameiningu verkefna. Frekari sérhæfing sé líka nauðsynleg og framleiðandi sem hafi sérhæft sig í ákveðinni framleiðslu þyrfti að geta boðið í þann hluta útboðs sem hann hafi sérhæft sig í. Þetta sé ekki hægt í þeim útboðum sem nú eru í gangi. Þar verði að bjóða í allt eða ekkert og þetta geri stöðvunum erfitt fyrir.


Hulda Guðmundsdóttir á Fitjum í Skorradal kynnti nýtt fyrirtæki, Fitjar skógrækt ehf. Skógareigendur á Fitjum vilja fikra sig áfram við vinnslu viðar úr skóginum og Hulda sýndi meðal annars veggjaklæðningar sem unnar eru á Flúðum úr efni úr Skorradal þar sem nýta megi bolina nánast upp til agna. Hún velti fyrir sér hvað ætti að gera við þann efnivið sem er að verða til í balsamasparskóginum á Fitjum. Möguleikar væru á að útvega efni í handverk, í smáhýsi eins og gufuböð eða flettingar. Viðarframleiðsla á Íslandi var um 5.400 rúmmetrar árið 2013 og um 2% af því fóru í flettingu (93 m3) en 79% í iðnaðarkurl. Hulda velti upp að öspina mætti nota í ýmislegt annað en kurl en hér vantaði bæði viðar­miðlara í landið og opinbera gæðastaðla, flokkunarreglur o.s.frv. Auðlindin væri dreifð og kunnáttu vantaði í ýmsa þætti úrvinnslunnar, s.s. þurrkun viðar. Hjá Fitjum skógrækt ehf. langar þau að kynna sér betur balsamviðinn, læra að þurrka hann og vinna. Keypt hefur verið lítil sögunarmylla frá Svíþjóð, liðléttingur og settur upp þurrkhjallur. Meðal annars er nú í ráði að selja asparvið til líkkistusmíða, segir Hulda.

Valgerður Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Norðurlandsskóga ræddi svo um gæða- og árangursmat í gróðursetningum landshlutaverkefnanna. Nú væri unnið við að samræma aðferðir við þetta mat, annars vegar gæðamat (úttekt á gróðursetningum sama ár) og hins vegar árangursmat til að meta afföll. Valgerður fór yfir drög sem nú liggja fyrir að reglugerð fyrir Landshlutverkefnin þar sem eru ákvæði um gæða- og árangursmat. Gæðamat er unnið til að tryggja vandaða gróðursetningu og minnka þar með afföll og hámarka vöxt. Við árangursmatið eru settir út fastir mæli­fletir sama ár og gróðursett er eftir fyrir fram ákveðnu mælineti. Þannig sést upphaflegur þéttleiki gróðursetningar og svo er skoðað árið eftir og fimm árum síðar. Reynt er að skrá orsakir affalla, rana­bjallna, frostlyftingar, bitskemmda, köfnunar í samkeppnisgróðri o.fl. Komið hefur í ljós að lifun eftir 1 ár er að meðal­tali 83% (árin 2006-2013) og eftir 5 ár 67% (árin 2006-2009). Meginskilaboðin hjá Valgerði voru þau að eftirlit með afföllum og gróðursetningum væri forsenda fyrir því að starfi landshlutaverkefnanna miðaði fram á við.


Pål Hansen, meistaranemi í skógfræðum á Ási í Noregi, lýsti fjarstýrðum loftförum, svokölluðum drónum, sem má búa myndavélum til loftmyndatöku. Meistaraverkefni hans snýst um að finna út aðferðir við að nýta þessi tæki til kortlagningar skóga, hvaða hæð sé best að fljúga í, hvers konar myndavél henti til að kort­leggja ungskóg o.fl. Meðal þess sem þarf að skoða er hvernig skipuleggja á fluglínurnar yfir viðkom­andi svæði. Dróninn tekur mörg hundruð myndir í hverri ferð og þær eru unnar saman í tölvu í eina stóra ljósmynd í forritinu Postflight Terra 3D. Myndirnar gefa ýmsar landfræðilegar upplýsingar og meðal annars er hægt að kalla fram þrívíddarmyndir. Með mismunandi litrófsmyndum má líka útbúa ná­kvæm­ gróðurkort, sjá hvernig landið liggur í skóginum o.s.frv. Þessi tækni gefur til dæmis möguleika á að meta viðarmagn í skógi. Að sögn Påls myndi taka um 105 daga að fljúga yfir íslensku skógana með nákvæmni upp á 10 cm/pixil en eldri loftmyndir af Íslandi eru í upplausn upp á hálfan til einn metra á pixil.

Hraundís Guðmundsdóttir, skógarbóndi á Rauðsgili í Borgarfirði, sagði frá þróunarstarfi sínu við að eima ilmkjarnaolíur úr íslenskum jurtum. Mikið væri flutt inn af slíkum olíum en ekkert hefði verið framleitt af þeim innan lands hingað til. Í Þýskalandi segir hún að þetta sé viðurkennt meðal heilbrigðisstéttanna og notað til að róa sjúklinga, hjálpa til við svefn, til hreinsunar og við nudd ásamt fleiru. Hraundís lýsti framleiðslu oíanna með eimun. Nota má nálar, blöð, blóm, köngla, fæ, rætur eða við en efnin eru mismunandi eftir plöntutegundum og virknin þar með. Þetta er dýr afurð. Verðið getur verið frá 10.000 kr. upp í 900.000 kr. lítrinn og fer eftir því hversu mikið er af olíunni í viðkomandi plöntu. Hraundís lærði aðferðirnar í Sedona í Arisóna í janúar 2015 hjá fyrirtækinu Phibee Aromatic sem eimar olíur úr um 60 tegundum, aðallega úr villtum skógum. Verið er að smíða 80 lítra eimingartæki til að eima ræktaðar og villtar plöntur á Rauðsgili, t.d. vallhumal, ætihvönn, geithvönn, piparmyntu, kvisti af furu, greni og þin. Hraundís auglýsti eftir skógum með þin og degli til að taka kvisti úr en hún hefur fundið fyrir áhuga margra, m.a. að nota olíurnar í kerti og sápur en líka bjór. Það yrði sannkallaður skógarbjór.

Bergþóra Jónsdóttir, skógarbóndi á Hrútsstöðum í Dölum, kynnti lokaverkefni sitt í skógfræði við LbhÍ sem hún vann undir leiðsögn Bjarna Diðriks Sigurðssonar og Þrastar Eysteinssonar. Fyrstu þrjú árin í lifun, þroskaferli og vexti lerkiblendingsins ʼHryms‘ eru borin saman við venjulegt rússalerki (RL) og stafafuru (SF) í rýrum hrísmóum á Hrútsstöðum í Dalasýslu í samvinnu við Skógrækt ríkisins og Vesturlandsskóga. Lifun ʼHryms‘ eftir þrjú ár var mjög góð, í kringum 90%, sem telst mjög gott í rýru landi og eilífum vindi. Nokkurt toppkal varð á fyrsta hausti sem kom niður á hæðarvexti og leiddi til margtoppa trjáa. Meðal niðurstaðna má nefna að þvermál Hryms er um þriðjungi meira en bæði rússalerkis og stafafuru. ʼHrymur‘ sýnir góða lifun í Dölum, meiri samanlagðan þvermálsvöxt en RL og SF, laufgast seinna en rússalerkið og kelur því síður að vorlagi en haustar sig þó seinna. Það gæti skapað hættu á haustkali. Þetta er í samræmi við það sem sést hefur víða um land að Hrymur vaxi umtalsvert hraðar en rússalerki.

Rakel Jónsdóttir, Benjamín Davíðsson, Skúli Björnsson, Valdimar Reynisson og Sæmundur Kr. Þorvaldsson hlýða á erindi á ráðstefnunni.">

Arnór Snorrason, skógfræðingur á Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá, og Björn Traustason, landfræðingur á sömu stofnun, sögðu frá endurkortlagningu náttúrlegra birkiskóga og -kjarrs á Íslandi sem nú er nýlokið. Arnór talaði um að margir hefðu reynt að áætla hversu útbreitt birki hefði verið við landnám og fengið tölur frá því um 8.000 km2 fyrir birkiskóg sem nær 2 m hæð upp í ríflega 40.000 km2. Arnór fór yfir sögu birkikortlagninga allt frá herforingjaráðskortunum á sínum tíma og til nútímans, sagði frá fyrri birkikönnuninni 1972-1975 sem sýndi 1.255 km2 af birkiskógum og -kjarri og hinni seinni sem fór fram 1987-1991. Hann minntist líka á endurútreikninga á fyrri niðurstöðum og skekkjur sem þar komu í ljós. Björn Traustason tók svo við og kynnti niðurstöður nýju birkikortlagningarinnar sem sýna að náttúrlegt birki nær yfir 1.506 km2 eða 1,5% landsins. Aukningin væri 9% frá 1989, 129 km2, hlutfallslega mest á Vesturlandi, Suðurlandi og Vestfjörðum en minnst á Norður- og Austurlandi. Svipaða sögu er að segja um hlutfall nýliðunar. Björn brá upp kortum sem sýndu dæmi um hvernig aukningin lítur út í Laugabólsdal og Langadal við Ísafjarðardjúp en líka á Þórsmörk.

Úlfur Óskarsson, lektor við LbhÍ, hélt því næst erindi sem hann kallaði Ber í skógi. Úlfur er að hrinda af stað Evrópuverkefni ásamt Jóni Kr. Arnarsyni um ræktun tveggja berjategunda, hafþyrnis og rauðberjalyngs. Hafþyrnir sé þurrk- og saltþolin tegund með stórt útbreiðslusvæði en algengasta kvæmið hérlendis hafi verið Ørlandet frá Noregi. Runninn myndar ríkulega af berjum hérlendis og þrífst vel víða, t.d. finnsk yrki af rússneskum uppruna. Berin þykja holl og eru bæði notuð fersk en líka í ýmsar heilsu- og snyrtivörur. Hafþyrnir þarf sólríkan stað og lélegan, sendinn jarðveg þar sem lítil samkeppni er við aðrar plöntur. Gallinn er kannski einna helst hversu erfitt er að tína berin fyrir þyrnunum segir Úlfur. Hann ræddi líka um rauðber sem eru sígræn lyngtegund, skuggþolin skógarplanta og víða vinsæl berjaplanta. Hún vex villt á Norðaustur- og Austurlandi og er slæðingur á Suðvesturlandi. Berin eru ræktuð í stórum stíl í Oregon í Bandaríkjunum. Auðvelt er að fjölga tegundinni með renglum eða græðlingum og hún þrífst vel í ræktuðum skógum en ekki á berangri nema þar sem snjór hlífir henni á vetrum. Verið er að prófa klóna sem safnað hefur verið hérlendis en áhugavert væri að prófa erlend yrki, að sögn Úlfs. Mesta uppskeran sé væntanlega í gisnum, björtum skógum eða jöðrum skóga eða skjólbelta.

Í síðasta erindi Fagráðstefnunnar tíundaði Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor við LbhÍ, kolefnisbindingu í jarðvegi skóga. Fram kom að 60% af kolefni í evrópskum skógum liggja í jarðveginum en um 23% í viði og laufi. Hlutfallið er hærra nyrst, allt að 70-80%. Bjarni segir að rannsaka þurfi betur kolefnisbúskap íslenskra skóga. Það sé dýrt og viðamikið verkefni en með samlagningu íslenskra gagna við dönsk, finnsk, sænsk lettnesk og litháísk megi fá traustari niðurstöður. Jarðvegskolefni er greinilega að aukast þar sem íslenskir skógar hafa verið skoðaðir, segir Bjarni. Kolefnisbinding í jarðvegi í rýru mólendi sé t.d. meiri en ofan jarðar fyrstu 30 árin en það eigi þó ekki við þar sem jarðunnið er eða á framræstu landi. Kolefnisbinding í jarðvegi sé líka meiri eftir því sem vöxtur trjánna er meiri og sömuleiðis sjáist að sveppalíf er mjög mikilvægt í þessu sambandi. Vísindalega hafi verið staðfest að það er nettó kolefnisbinding í jarðvegi íslenskra skóga, þ.e. í efsta 10 cm laginu neðan feyrulagsins. Undantekning sé frjósamt, villt graslendi sem sýni tap á kolefni í jarðvegi. Á rýra landinu, mólendinu, sé alls staðar marktæk binding í efstu 10 cm og ekkert bendi til þess að bindingin minnki með tímanum í jarðvegi skógarins. Íslensku rannsóknirnar sýni að barrskógar bindi meira en laufskógar í feyrulaginu en bindingin liggi dýpra í laufskógunum. Aspar- og birkiskógar bindi minnst í feyrulaginu en greniskógar mest. Bjarni segir að rannsaka þurfi betur áhrif þeirrar aðferðar við grisjun og skógarhögg að taka heil tré úr skóginum með greinum og toppum. Þar með sé tekið úr skóginum mikilvægt efni fyrir hringrás vistkerfisins enda hafi komið í ljós að slíkt skógarhögg dragi úr vexti skógarins næstu þrjátíu árin á eftir.

Texti: Ragnhildur Freysteinsdóttir og Pétur Halldórsson
Myndir: Pétur Halldórsson