Koma þarf skógarmálum betur á framfæri og með skýrum, einföldum skilaboðum

Samstarfsnet kynningarfólks hjá evrópskum skógarstofnunum, Forest Communicators' Network (FCN), kom saman í Berlín í lok aprílmánaðar á árlegum fundi sínum. Í þetta skipti var fundurinn haldinn í boði þýska skógasambandsins, Deutscher Forstverein (DFV) með stuðningi þýska matvæla- og landbúnaðarráðuneytisins (BMEL) og skógarstofnunar Berlínar, Berliner Forsten. Þetta var í fyrsta skipti sem fundur samstarfsnetsins var haldinn í Þýskalandi á þeim tveimur áratugum sem það hefur starfað.

Fundarfólk var 35 talsins, fulltrúar frá stofnunum Sameinuðu þjóðanna, ráðuneytum eða opinberum stofnunum, alþjóðlegum samtökum og rannsóknarstofnunum á sviði skógarmála. Á fundinum deildi fólk reynslu sinni af skógarmálastarfi á opinberum vettvangi. Markmiðið var að miðla góðum hugmyndum og draga fram hvernig best væri að tala fyrir mikilvægum viðfangsefnum á borð við sjálfbærar skógarnytjar (Sustainable Forest Management, SFM), hvort sem væri á sviði stjórnmálanna eða viðskiptalífsins.

Mikilvægt leiðarstef á fundinum var græna hagkerfið svokallaða enda áberandi í samfélagsþróuninni um allan heim.  Hingað til þykir skógargeirinn ekki hafa verið mjög áberandi í alþjóðlegri umræðu um græna hagkerfið. Á fundinum í Berlín var unnið að því, meðal annars í sérstökum vinnuhópum, að finna leiðir til þess að vekja athygli nær og fjær á því hversu mikilvægt hlutverk skógar og skógarnytjar geta leikið í græna hagkerfinu. Ekki er síst mikilvægt að ná eyrum stjórnmálafólks í þeim efnum. Þetta á við í baráttunni við loftslagsbreytingarnar en líka í þróun græns viðskiptalífs. Vandinn er að finna bestu leiðirnar til að koma þessum skilaboðum á framfæri svo þær séu meðteknar og vinnuhóparnir voru sammála um að þetta væri best að gera með skýrum og einföldum skilaboðum.

Áberandi var einmitt á fundinum spurningin um hvernig koma ætti skilaboðum á framfæri þannig að tekið væri eftir þeim. Um þetta ræddu bæði gestafyrirlesarar og fundarfólk sjálft. Viðfangsefni kynningarfólks og þröskuldar eru með svipuðu móti frá einu landi til annars. Til dæmis eiga öll Evrópulönd það sameiginlegt að í samanburði við landbúnaðinn hafa skógar og skógarnytjar mjög litla vigt í stjórnmálaumræðunni, jafnvel þótt augljóst sé hversu miklu skógar og skógarnytjar skila til vistkerfisins og til atvinnu- og efnahagslífsins.

Ljóst er að kynningarfólk á sviði skógarmála þarf að stíga varlega til jarðar þar sem eru átakalínur milli annað hvort þess hvort nýta á viðinn eða geyma hann sem kolefnisbirgðir í skóginum ellegar hvort nýta á viðinn sem hráefni eða sem eldsneyti. Þessar átakalínur liggja bæði innan og utan skógargeirans sjálfs og getur verið nokkuð snúið fyrir kynningarfólk að taka sér stöðu á þeim velli.

Talsvert var rætt á fundinum um notkun nútíma samskiptamiðla eins og Facebook og Twitter eða fjölbreyttrar þjónustu Google. Greinilegt var að fólk er mislangt komið í þessum efnum og eftir því sem löndin eru stærri og stofnanirnar sem fólk starfar hjá virðist vera meiri tregða til að nýta sér þessa miðla. Fram kom að í Eistlandi hefur verið gengið mjög langt í þessum efnum og fara samskipti borgaranna við ráðuneytin og stofnanir þeirra að verulegu leyti fram gegnum Facebook. Í stærri löndum og hjá alþjóðastofnunum eins og Sameinuðu þjóðunum og Evrópusambandinu ríkir enn tortryggni í garð nýju miðlanna og ótti við að mikilvægum upplýsingum sé ekki óhætt, til dæmis á gagnageymslum Google. Lög og reglur um gagnaöryggi í Þýskalandi gera til dæmis að verkum að nýju miðlarnir eru enn lítið notaðir í samskiptum opinberra aðila þar í landi.

Samstarfsnetinu Forest Communicators' Network var komið á fót sem sérfræðingahópi fyrir atbeina matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO),  og UNECE sem er efnahagsnefnd Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu. Um það bil 150 almannatenglar og sérfræðingar frá opinberum og alþjóðlegum stofnunum hittast einu sinni á ári. Saman er þessi hópur mikilvæg rödd sem talar máli skógræktar og skógarnytja á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Sú rödd nýtist líka vel við stefnumótun Evrópusambandsins í skógarmálum og fyrir þátttakendur sjálfa til að setja niður fyrir sér hvaða skógarmálefnum er vert að halda á loft hverju sinni.

Milli fundanna hafa þátttakendur samskipti sín á milli og standa fyrir eða taka þátt í sameiginlegum herferðum eða viðburðum eins og til dæmis alþjóðadegi skóga 21. mars eða evrópsku skógarvikunni. Þá má líka nefna mjög árangursríkt starf að fræðslumálum. Innan FCN starfar sérstakur vinnuhópur um skógarfræðslu sem fræðast má nánar um á vefsíðunni www.forestpedagogics.eu




Næsti fundur FCN verður haldinn í apríl 2015 í Barselóna á Spáni.

Nánari upplýsingar: www.unece.org/forests/information/fcn